A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Videocracy | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Videocracy (2009)

15. nóvember '11 00:00 Videocracy

„Einhverra hluta vegna, kannski vegna þess að lýðræði er handónýtt stjórnarform, hefur Berlusconi vermt stól forsætisráðherra Ítalíu manna lengst...“

Nú þegar spillingarspaðinn, glaumgosinn og pólitíska stórslysið Silvio Berlusconi hefur stigið til hliðar, án þess þó að hafa sagt sitt síðasta orð ef eitthvað er að marka þennan magnaða hrokagikk er ekki úr vegi að renna aftur yfir heimildarmyndina Videocracy . Þessi mynd segir frá nokkrum óvönduðum og ömurlegum mönnum úr herbúðum Berlusconis auk þess sem myndin gefur ágætis skyndimynd af ömurlegri og fatafárri sjónvarpsmenningu Ítala sem fjölmiðlakóngurinn Silvio ber mikla ábyrgð á.
 

Einhverra hluta vegna, kannski vegna þess að lýðræði er handónýtt stjórnarform, hefur Berlusconi vermt stól forsætisráðherra Ítalíu manna lengst þótt hann dragi á eftir sér langan hala spillingarmála sem ná eiginlega yfir alla helstu lesti og bresti sem almættið ákvað að leggja á mannkynið.
 

Á síðustu misserum hefur mest farið fyrir sögum af skrautlegum kvennamálum Silvios. Sögurnar eru lítið betri en þær sem fengu ofurkylfinginn Tiger Woods til að lúta í gras og það er eins og að stökkva vatni á gæs að væna þennan nú loks fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu um spillingu og ofuráhuga á holdsins lystisemdum.
 

Þessi aðalgæi á Ítalíu er því óneitanlega áhugavert eintak og að ósekju hefði þessi heimildarmynd mátt hafa hann og valdabrölt hans í forgrunni en höfundinum er svo mikið í mun að reyna að útskýra fyrir okkur, sem þekkjum ekki þjóðarsál Ítala gjörla, hvers vegna í ósköpunum ekkert hefur fengið haggað Berlusconi fyrr en nú þegar Evrópa er öll í klessu hvort eð er. Auðvitað má ekki gleyma því að Silvio var ekki bara forsætisráðherra heldur líka fjölmiðlakóngur og í byrjun myndarinnar fáum við að vita að hann byggði sjónvarpsveldi sitt í upphafi á svo lágkúrulegum spurningaþáttum, sem gerðu fyrst og fremst út á nekt kvenna, að þótt maður hafi meira að segja séð íslenskt raunveruleikasjónvarp þá er varla annað hægt en að æla.

Mann langar því eðlilega að kynnast innri manni þessarar fígúru sem hafði Ítalíu á valdi sínu betur en í stað þess að velta okkur upp úr ljótum sögum af Silvio kýs leikstjórinn Gandini að reyna að útskýra fyrir okkur hvaða grunnveila veldur því að þjóð hans kallar Berlusconi ítrekað yfir sig með bros á vör.
 

Sú staðreynd er auðvitað svo galin að meira að segja Íslendingar sem mæta heiladauðir í kjörklefana á fjögurra ára fresti og kjósa yfir sig ýmist sturlað lið eða ónothæf gauð telja sig þess umkomna að gera grín að Ítölum. Í nálgun Gandini sannast svo hið forkveðna að vel má meta menn út frá vinum þeirra og þeir kunningjar Berlusconis sem hér eru kynntir til leiks eru vægast samt ömurlegir en alveg hreint dásamlegar persónur í kvikmynd. Þannig að þótt fókus myndarinnar fari í allar áttir og enginn punktur sé hamraður alla leið þá er vel þess virði að fá að kynnast leppalúðunum í hirð Silvios.
 

Helsta niðurstaða myndarinnar er sú að sá sem stjórnar sjónvarpinu ræður, enda verður þeirri sorglegu staðreynd ekki haggað að fólk kýs frekar að trúa því sem það sér en því sem það les og heyrir. Þess vegna réði Berlusconi enda er ekki hægt að segja annað en jarðvegurinn sem hann sprettur upp úr sé honum hollur þar sem Ítalía er númer 77 á heimslista yfir frelsi fjölmiðla, númer 84 á heimslista yfir jafnrétti kynjanna og 80 prósent þjóðarinnar nota sjónvarp sem sína helstu upplýsingaveitu.
 

Allir Íslendingar hafa gott af því að horfa á þessa mynd en í guðanna bænum lítið ykkur nær áður en þið farið að hlæja að Ítölunum fyrir það hvað þeir eru ógeðslega vitlausir.
 

Leikstjóri: Erik Gandini
Handrit: Erik Gandini
Leikarar: Silvio Berlusconi, Flavio Briatore, Fabio CalviSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða