A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Vonarstræti | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Vonarstræti (2014)

19. maí '14 14:49 Vonarstræti

„Mannleg og ljúfsár mynd um skin og skúrir í lífum þriggja manneskja sem allar eru komnar út af sporinu og takast við við innri djöfla og umhverfi sitt.“

Ung einstæð móðir og leikskólakennari drýgir tekjur sínar með því að selja sig, þekktur en heillum horfinn rithöfundur ranglar um götur Reykjavíkur, mökkölvaður og illa til reika og bráðmyndarlegur fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu fær flott starf í banka á bólutímanum. Sögur þessa þriggja ólíku einstaklinga, sem allir hafa sína djöfla að draga og glíma við sjálfa við og lífið, fléttast saman í Vonarstræti.

Þorsteinn Bachmann leikur rithöfundinn og fer með himinskautum í túlkun sinni á manni sem er svo tættur á sálinni að hann má helst ekki láta renna af sér. Þorsteinn hefur vaxið og eflst með hverju hlutverki undanfarin ár og hefur aldrei verið betri. Sendið manninum bara Edduverðlaunin í pósti strax. Það mál er dautt.

Hera Hilmarsdóttir fylgir fast á hæla Þorsteins og gerir vændiskonunni ungu prýðileg skil, þar sem hún sveiflast milli gleði, sorgar, ótta og angistar. Hera nær, ekki síður en Þorsteinn, strax taki á áhorfandanum. Þetta er fólk sem manni fer strax að þykja vænt um, þannig að áhorfandinn þjáist og gleðst með þeim á víxl og stendur ekki á sama um hver örlög þeirra verða.

Þorvaldur Davíð tæklar bankamanninn áreynslulaust. Maðurinn er auðvitað með eindæmum fagur og smellpassar í rulluna. Saga bankamannsins er léttvægust af þessum þremur og er í raun óþörf. Dramað er mest í þætti Þorsteins og Heru enda tengjast sögur þeirra beint og mest mæðir á þeim í myndinni. Í raun læðist að manni sá grunur að þáttur bankamannsins þjóni fyrst og fremst þeim tilgangi að vekja athygli og umtal í samfélagnu sem enn elskar að hata útrásarvíkinga og getur vel hugsað sér að horfa á slíka kóna sviðna aðeins í bíó. Þorvaldi Davíð tekst þó að afla sínum manni samúðar, enda þarna á ferðinni dengur góður í virkilega vondum félagsskap.

Sögur þremenninganna renna engu að síður saman í sterka og sannfærandi heild og hefur Baldvin Z góð tök á bæði leikurum og öllum þráðum sem hann hnýtir fast saman í lokin. Kvikmyndatakan er til fyrirmyndar, úthugsuð og smart, og tónlist Ólafs Arnalds er virkilega flott og fellur fullkomlega að stemmningunni í myndinni. Þá er handritið býsna gott og leikararirnir gera sér góðan mat úr safaríkum persónum sem Baldvin og hinn næmi textahöfundur og tónistarmaður Biggi, jafnan kenndur við Maus, skapa þeim.

Vegur persónanna er að vísu varðaður klisjum, frá upphafi til enda, og framvindan er nokkuð fyrirsjáanleg. Þetta þarf þó alls ekki að vera ókostur vegna þess að klisjur væru auðvitað ekki klisjur nema vegna þess að þær endurtaka sig í sífellu í lífinu og sjálfsagt lifum við öll í einhvers konar klisjum.

Klisjurnar eru líka frekar notalegar hérna vegna þess að öll þekkjum við þær þannig að í raun draga þær hvergi úr áhrifamætti sögunnar í Vonarstræti sem er mannleg og ljúfsár mynd um skin og skúrir í lífum þriggja manneskja sem allar eru komnar út af sporinu og takast við við innri djöfla og umhverfi sitt. Eitthvað sem flestir kannast líklega við hjá sjálfum sér.

Leikstjóri: Baldvin Zophoníasson
Handrit: Baldvin Zophoníasson, Birgir Örn Steinarsson
Leikarar: Þorsteinn Bachmann, Hera Hilmarsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Kristín Lea SigríðardóttirSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða