A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Walking Tall | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

DVD: Walking Tall (2004)

6. apríl '13 14:05 Walking Tall

„Dwayne Johnson leysir heillum horfna harðhausa eins og Steven Seagal og Jean Claude Van Damme af með glæsibrag enda hæfileikaríkari en þeir báðir til samans.“

Dwayne Johnson er heldur betur að gera sig breiðan í bíó þessa dagana og lætur til sín taka í tveimur myndum, Snitch og G.I. Joe: Retaliation. Það er því tilvalið að renna í gegnum hetjumyndina hans Walking Tall frá árinu 2004 þegar hann var eiginlega ennþá meira The Rock en Dwayne og var að ná fótfestu eftir að hafa hnyklað vöðvana í The Mummy Returns og The Scorpion King.

Walking Tall er endurgerð eða endurvinnsla á samnefndri mynd með Joe Don Baker frá 1973 og fjallaði um lögreglustjóra í smábæ sem lagði allt undir til þess að hreinsa bæinn sinn af glæpahsyki sem lét þar öllum illum látum.

Johnson leikur Chris Vaughn, vöðvastæltan sérsveitahermann, sem snýr aftur heim til litla smábæjarins síns eftir átta ára fjarveru til þess eins að komast að því að fallegu heimahagarnir eru orðnir viðbjóðslegt lastabæli. Gömlu myllunni, aðalvinnustaðnum í bænum, hefur verið lokað og eina tekjulind samfélagsins er subbulegt spilavíti sem um leið er dreifingarmiðstöð fyrir eiturlyf.

Til að bæta gráu ofan á svart er spilavítinu og sölumönnum dauðans stýrt af gömlum keppinauti Chris úr skóla og á ruðningsvellinum í gamla daga. Þetta gengur auðvitað ekki þannig að Chris tekur málin í sínar hendur, beinbrýtur vondu kallana, rústar spilavítinu með einni tréspýtu og í stað þess að fara í fangelsi fyrir lætin er hann kosinn lögreglustjóri. Þá æsist fyrst leikurinn og til magnaðs lokauppgjörs kemur á milli skólafélaganna þar sem öllum meðulum er beitt, vélbyssum, sprengjum og öllu þar á milli.

Fyrirfram getur maður ekki gert miklar kröfur til mynda af þessu tagi enda lunginn af því sem framleitt er í þessari deild rusl sem á lítið sem ekkert erindi í kvikmyndahús. Walking Tall slagar hins vegar vel upp fyrir meðallagið og Dwayne er alls ekki svo slæmur þarna þótt hann hafi bætt sig nokkuð í kjölfarið. Hann leysir heillum horfna harðhausa eins og Steven Seagal og Jean Claude Van Damme af með glæsibrag enda hæfileikaríkari en þeir báðir til samans.

Leikstjóri: Kevin Bray
Handrit: Mort Briskin, David Klass, Channing Gibson, David Levien, Brian Koppelman
Leikarar: Dwayne Johnson, Ashley Scott, Johnny Knoxville, Neal McDonough, Michael BowenSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða