A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Welcome to the Punch | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Welcome to the Punch (2013)

28. september '13 12:00 Welcome to the Punch

„Welcome to the Punch gæti lítið út fyrir að vera harðsoðinn breskur krimmi en hefur hvorki söguna né sjarmann til þess að standa undir því...“

Glæpamaðurinn Jacob Sternwood kemur úr felum þegar sonur hans er í lífshættu eftir deilur við menn í undirheimum London. Sternwood, sem framdi stórtækt rán þremur árum áður, flúði land en hann gerði þá þau dýrkeyptu mistök að þyrma lífi lögreglumannsins Max Lewinsky.

Eitt það fyrsta sem maður tekur eftir í Welcome to the Punch er hversu frábrugðin öðrum breskum krimmum hún er í útliti. Flest öll útsýnisskot eru að kvöldi til þegar byggingar og arkitektúr lýsa upp himininn og fyrir vikið missir stórborgin London sjarma sinn og sögusviðið verður eins og í hverri annarri auðgleymanlegri bandarískri glæpamynd.

Eran Creevy leikstýrir hér sinni annarri kvikmynd og fær ekki minni stjörnur en James McAvoy og Mark Strong til þess að fara með aðalhlutverkin. Nokkuð gott fyrir ekki vanari mann. Leikstjórnin er þó ögn viðvaningsleg og handritið, sem Creevy skrifar, er vanþróað og á köflum í lamasessi þar sem of margir endar eru lausir þannig að heildin er ómarkviss.

Merkilegt nokk koma Íslendingar við sögu í myndinni. Sternwood, sem Strong leikur, flýr til Íslands og hefur gert sér griðarstað á Hellu (?!) þar sem hann nýtur eftirlaunaáranna þar sem hann er umkringdur skógi og undir dansandi norðurljósum. Víkingasveitin reynir að hafa hendur í hári Sternwoods en mistekst hrapalega.

Strong ber höfuð og herðar yfir leikhópinn ásamt Peter Mullan sem leikur gamlan hrotta og vin Sternwoods. Það er engu líkara en að McAvoy finni sig ekki í mynd á borð við þessa þar sem sú krafa er gerð til persónunnar að hún sé beinskeytt og hörð í horn að taka. Hann hefur svo sannalega átt betri daga en hér.

Welcome to the Punch gæti lítið út fyrir að vera harðsoðinn breskur krimmi en hefur hvorki söguna né sjarmann til þess að standa undir því. Ekki hjálpar losaralegt handritið sem verður til þess að myndin er einkar fyrirsjáanleg og auðgleymanleg en þrátt fyrir það verður áhugavert að sjá hvað leikstjórinn tekur sér næst fyrir hendur.

Leikstjóri: Eran Creevy
Handrit: Eran Creevy
Leikarar: James McAvoy, Mark Strong, Andrea Riseborough, Johnny Harris, David Morrissey, Peter MullanSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða