A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

White House Down | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: White House Down (2013)

2. júlí '13 01:09 White House Down

„Þótt White House Down sé að kafna úr ófrumleika og Roland Emmerich smyrji þykku lagi af sinni glassúrbleiku vellu yfir þetta allt saman þá er hún prýðileg skemmtun.“

Nei sko! Eru þeir ekki mættir Hans Gruber, Karl og tölvuhakkarinn Theo ásamt hópi málaliða, gráum fyrir járnum? Nema þeir heita núna eitthvað allt annað og eru leiknir af einhverjum nýjum gæjum sem eru greinilega rosa klárir vegna þess að þeir hertaka Hvíta húsið eiginlega með minni fyrirhöfn en þeir lögðu Nakatomi-bygginguna undir sig 1988. Aðferðafræðin er samt meira eða minna nákvæmlega sú sama. Svo poppar Channing Tatum upp, í hvítum hlýrabol og lætur eins og John McClaine og fokkar upp vandlega plottuðu valdaráni og umfangsmiklu hryðjuverki. Hann þarf samt ekki að bjarga konunni sinni núna, heldur snjallri dóttur sem er að taka frumgelgjuna aðeins of hátíðlega. Já, svo er þarna eins og eitt stykki forseti Bandaríkjanna sem þarf á björg úr bráðum lífsháska að halda en manninn í hvíta bolnum munar ekki mikið um að redda honum í leiðinni.

Þetta er í stuttu máli þráðurinn í spennumyndinni White House Down og í raun hljóta Jeb Stuart og Steven E. de Souza að eiga góða möguleika á að vinna mál gegn James Vanderbilt fyrir hugverkaþjófnað enda varla hægt að kalla hann handritshöfund myndarinnar þar sem hann hefur lítið annað gert en að skrifa Die Hard upp og breyta aðeins persónum eða bæta einhverjum við. White House Down er svo fáránlega lík Die Hard að þetta hlýtur að vera með ráðum gert. Í einu atriða myndarinnar missir Jamie Foxx, í hlutverki forsetans, meira að segja annan skóinn og allir með réttu ráði hugsa auðvitað aftur til Bruce Willis þegar hann barðist berfættur á milli hæða í Die Hard.

Die Hard er vitaskuld með betri spennumyndum síðustu áratuga og því kannski þrátt fyrir allt ekki leiðum að líkjast. Þótt White House Down sé að kafna úr ófrumleika og Roland Emmerich smyrji þykku lagi af sinni glassúrbleiku vellu yfir þetta allt saman þá er hún prýðileg skemmtun og manni leiðist ekkert eftir að terroristarnir láta til skarar skríða og Tatum vaknar til lífsins. Hann er á hraðri uppleið í Hollywood og einhver orðrómur gengur um að hann sé frambærilegur leikari en  hér reynir ekkert á það. Hann þarf bara að mæta, vera sætur og sýna vöðvana. Og drepa helling af vondum köllum. Pís of keik.

Foxx er sjálfum sér líkur og leikur forsetann sem er líklega nákvæmlega eins og við viljum að Barack Obama sé og fjölmargir höfðu trú á þangað  til hann steig fram sem vaskur stríðsforseti. Þessi hjartahreini forseti er með metnaðarfullar hugmyndir um að binda enda á átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og draga allan herafla Bandaríkjanna til baka. Þetta fer illa í kvótagre.... hergagnaframleiðendur og fleiri sem eru tilbúnir til þess að leggja allt undir til þess að losna við þennan vandræðagemling úr Hvíta húsinu.

Hvíta húsið er merkilega mikið í skotlínu hasarmyndaframleiðenda í Hollywood um þessar mundir en Gerard Butler er rétt nýbúinn að redda málum þar innanhúss í Olympus Has Fallen þegar Emmerich setur þar allt á annan endann. Síðan hlýtur það að vera verðugt verkefni fyrir öflugt teymi sálfræðinga að reyna að komast til botns í því hvað Emmerich gefur á móti opinberum byggingum í Bandaríkjunum en hann virðist ekki geta stillt sig um að sprengja þær í loft upp hvenær sem færi gefst.

Ekkert vantar þó upp á þjóðerniskenndina hjá leikstjóranum sem spólar yfir sig í amerískri mærðarvellunni undir lokin þannig að í raun vantar ekkert nema þjóðsöng þeirra Bandaríkjamanna í restina. Þetta var álíka yfirkeyrt í Independence Day og sjálfsagt verður mörgum óglatt yfir þessu en mér finnst þetta sætt. Fæ alveg gæsahúð og græt það að hafa ekki fæðst í Bandaríkjunum þar sem gegnheiar hetjur fæðast daglega og ekkert fær stöðvað.

White House Down er yfirgengileg að öllu leyti. Í væmninni, þjóðrembunni, hasarnum, fjölda drepinna og fokdýrum tæknibrellum þar sem bílum, þyrlum, byggingum og öllu þar á milli er rústað með tilþrifum. Þegar þessi gállinn er á Emmerich skilar hann pottþéttri og fullkomlega heildadauðri skemmtun sem er akkúrat það sem White House Down er og á að vera. Þeir sem ætlast til annars þurfa að láta skoða í hausinn á sér. Svona hafa þeir þetta í landi hinna frjálsu og heimili hinna hugrökku og þeir kunna sko sitt fag.

Leikstjóri: Roland Emmerich
Handrit: James Vanderbilt
Leikarar: Channing Tatum, Jamie Foxx, Maggie Gyllenhaal, Richard Jenkins, James Woods, Jason ClarkeSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða