A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

X-Men: Days of Future Past | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: X-Men: Days of Future Past (2014)

22. maí '14 20:39 X-Men: Days of Future Past

„X-Men: Days of Future Past er tvímælalaust besta X-Men myndin til þessa...“

Árið 2023 hefur stökkbreyttum að mestu verið útrýmt og mannkynið er í klóm risavélmenna sem kallast Sentinels. Þeir fáu X-menn sem eftir standa eru á undanhaldi og er gripið til þess ráðs að senda Jarfa aftur í tímann, til ársins 1973. Áætlunin er að koma í veg fyrir atburðarás sem verður til þess að vélmennin verði að veruleika og bjarga framtíð stökkbreyttra og mannkynsins eins og það leggur sig.

Síðastliðin fjórtán ár hafa ofurhetjumyndir komið af færibandi frá Hollywood og það er ekki síst fyrstu X-Men myndinni að þakka, eða að kenna, eftir því hvernig á það er litið. Áður en X-Men leit dagsins ljós árið 2000 virtust stúdíóin hræðast ofurhetjur sem hétu eitthvað annað en Superman eða Batman. Nú telur X-Men bálkurinn sjö myndir og nú þegar er búið að tilkynna áttundu og níundu myndirnar.

Leikstjórinn Bryan Singer leikstýrði tveimur fyrstu myndunum með ágætum og kemur nú aftur að myndabálkinum. X2 og X-Men: First Class sem Singer og Matthew Vaugh leikstýrðu bera höfuð og herðar yfir hin innslögin í bálkinum og svo skemmtilega vill til að söguþráður X-Men: Days of Future Past sameinar tvö tímabil í seríunni þannig að yngri og eldri útgáfur persónanna, leiknar af mismunandi leikurum, deila nú myndinni.

Jarfi eða Wolverine, eins og hann er nú oftast kallaður, ferðast milli þessara tveggja tímabila. Það er hægara sagt en gert að útfæra tímaflakk í kvikmynd þannig að það gangi upp ef tvær tímalínur eru sýndar samhliða en Singer og handritshöfundinum Simon Kinberg tekst þetta. Snurðulaus og sleip frásögn atburðarásanna tveggja er fantagóð og heldur áhorfendum á tánum þar sem vönduð klipping John Ottman, sem semur einnig tónlist myndarinnar, spilar stóran þátt í hversu skýr atburðarásin er.

Hin sígilda ofurhetjuspeki að almannaheill vegi þyngra en deilur tveggja einstaklinga er að vitaskuld til staðar og erkióvinir leggja ágreining sinn til hliðar til þess takast á við sameiginlega ógn. Sögusviðin tvö eru afar spennandi fyrir áhugafólk og það verður sérstaklega áhugavert að vita hvert aðstandendur leiða áhorfendur í næstu mynd í ljósi þess að ný tímalína hefur nú orðið til með tilkomu þessarar myndar.

Hugh Jackman endurtekur hlutverk Jarfa í sjöunda skiptið og rétt eins og áður hefur hann slegið eignarrétti sínum á persónuna; Jackman er Wolverine, svo einfalt er það. Hlutverk þeirra Magneto og Xavier steinliggja fyrir þeim kumpánum Ian McKellen og Patrick Stewart, og má hið sama segja um Michael Fassbender og James McAvoy í sömu hlutverkum á yngri árum. Eins og alltaf er hrein unun að fylgjast með Fassbender leika og fer hlutverk hins svikula Magneto honum afar vel.

Peter Dinklage og Evan Peters eiga góða innkomu sem vopnaframleiðandinn Bolivar Trask og hinn stökkbreytti Quicksilver en hann stelur svo sannalega senunni í bráðfyndnu, frumlegu sérlega vel heppnuðu atriði. Jennifer Lawrence, Halle Berry, Ellen Page og Nicholas Hoult eru áfram til staðar í hlutverkum úr fyrri myndum.

X-Men: Days of Future Past er tvímælalaust besta X-Men myndin til þessa og er ekki annað hægt en að dáðst að handritsvinnunni sem fléttar saman tvö tímaskeið af kostgæfni. Eins furðulega og sjaldheyrt og það kann að vera þá bíð ég spenntur eftir áttundu myndinni í bálkinum.

Leikstjóri: Bryan Singer
Handrit: Simon Kinberg, Jane Goldman, Matthew Vaughn
Leikarar: Hugh Jackman, James McAvoy, Michael Fassbender, Ian McKellen, Patrick Stewart, Jennifer Lawrence, Nicholas Hoult, Ellen Page, Peter Dinklage, Halle Berry, Omar Sy, Evan PetersSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða