A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

XL | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: XL (2013)

28. janúar '13 12:41 XL

„Þetta breytir því þó ekki að XL er áhugaverð mynd sem á erindi við alla enda er öll þjóðin annað hvort virkir eða óvirkir alkóhólistar eða kengmeðvirkir aðstandendur...“

Líf og tilvera langt leiddrar fyllibyttu, sem komin er í dagdrykkju og læti, getur orðið ansi hreint samhengislaust og tætingslegt rugl. Að vísu dásamlega skemmtilegt og spennandi á köflum enda fylgir hnignandi siðferði subbulegt og spennandi kynlíf, alls konar hasar, slagsmál, mikið fjör og grín. Inn á milli eru hins vegar harkalegar brotlendingar, skelfilegir bömmerar, skjálfti, kaldur sviti, ótti, ranghugmyndir, vænisýki og fleiri fylgikvillar sem ekki er hægt að afgreiða öðruvísi en með því að drekka meira. Ofan á þetta allt saman leggjast svo áhyggjur, sár vonbrigði og nístandi sársauki maka, barna, nánustu fjölskyldu og vina. Slíkt þvælist þó ekkert sérstaklega fyrir ofvirka alkanum sem veltir sér upp úr sjálfhverfu sinni eins og úldin ýsa í raspi enda eru helstu vopn og verjur byttunnar afneitun og massívur hroki.

XL gerir öllu þessu endalausa bulli sem fylgir alkóhólistum eiginlega alveg frábær skil. Myndin er samhengislaus kokkteill atvika og alls konar átaka sem fylgja sukkinu. Handritshöfundarnir fara þá hættulegu en um leið heiðarlegu leið að hafa umgjörðina í fullkomnu samræmi við innihaldið. Línulaga frásögn, upphaf, miðja og endir koma því ekki til greina enda er rökrétt framvinda víðs fjarri þegar dottið er almennilega íða. Þetta byrjar með fyrsta glasinu og þar með hefst hringavitleysan, helför án fyrirheits.

Ólafur Darri Ólafsson er leikari í algerum sérflokki og ég hef hingað til ekki farið leynt með aðdáun mína á miklum hæfileikum hans og XL gefur mér enga ástæðu til þess að hætta því. Myndin hvílir á herðum Ólafs Darra sem er nánast alltaf í mynd og skilar drykkfellda þingmanninum Leifi Sigurðarsyni með glæsibrag. Þessum manni virðist ekkert ofviða og hann getur borið uppi og dregið leiksýningar og bíómyndir í land, að því er virðist fyrirhafnarlaust. Sérgæska og hroki alkans lekur af Ólafi Darra sem hefur hingað til fengist við öllu geðslegri persónur en þennan sótraft.

Eftir harkalegan fyllerísbömmer sem endar á YouTube reynir forsætisráðherra Íslands að þvinga Leif í meðferð en okkar maður sér vitaskuld enga vitglóru í slíku bulli enda fær hann ekki séð að hann eigi við neitt vandamála að stríða. Hann byrgir sig því vel upp af áfengi og hendir í eitt almennilegt partí sem gæti orðið hans síðasta.

XL er þvert yfir mjög vel leikin þótt Ólafur Darri gnæfi yfir henni. María Birta leikur unga ástkonu Leifs og sýnir enn og aftur að hún er frambærileg leikkona. Hún er tilgerðarlaus og eðlileg á tjaldinu, rétt eins og hún var í Óróa og Svartur á leik. Hún stripplast heilmikið í XL, rétt eins og hún gerði í Óróa og Svartur á leik og nú verður stúlkan að fara að fá hlutverk sem krefst þess ekki af henni að hún tæti sig úr hverri spjör. Það er miklu meira í hana spunnið.

Sjálfsagt fer frásagnarmáti XL öfugt í marga áhorfendur og sennilega fá fæstir aðrir en sjóaðar fyllibyttur (að því gefnu að þær muni eitthvað af eigin afrekum) nokkurn botn í þau ósköp sem fram fara á tjaldinu. Þetta breytir því þó ekki að XL er áhugaverð mynd sem á erindi við alla enda er öll þjóðin annað hvort virkir eða óvirkir alkóhólistar eða kengmeðvirkir aðstandendur og þótt öllum sé ekki gefið að meðtaka þessa groddalegu en sönnu afgreiðslu Martins Thorssonar á drykkjuruglinu þá ættu í raun allir að sjá sjálfa sig eða brot af sér í einhverjum persónum myndarinnar.

XL er eiginlega nákvæmlega eins og gott fyllerí. Tætingsleg, órökrétt, skemmtileg á köflum en hrollvekjandi þess á milli. Ólíkt drykkjutúr er myndin hins vegar hugvekjandi og að loknu áhorfi standa fyllibyttur aðeins frammi fyrir tveimur kostum; Hrynja íða eða fara í meðferð.

 

Leikstjóri: Marteinn Thorsson
Handrit: Marteinn Thorsson, Gudmundur Óskarsson
Leikarar: Ólafur Darri Ólafsson, María Birta, Elma Lísa GunnarsdóttirSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða