A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Zero Dark Thirty | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Zero Dark Thirty (2012)

21. febrúar '13 14:18 Zero Dark Thirty

„Þrátt fyrir að allir viti hvernig Zero Dark Thirty endar er uppbygging hennar ótrúlega þétt, spennandi og áhugaverð og það verður vafalaust spennandi að sjá hvert samstarf Bigelow og Boal leiðir þau í framtíðinni.“

Eftir árásina á World Trade Center og Pentagon hófst leit að hryðjuverkamanninum Osama bin Laden, forsprakka hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída. Leyniþjónusta Bandaríkjanna (CIA) stóð fyrir leitinni ásamt öðrum en henni lauk áratug síðar þegar bandarískir sérsveitarmenn í Seal 6-hópnum drápu bin Laden í Pakistan.

Teymið bakvið hinu stórgóðu The Hurt Locker frá árinu 2009 gerir Zero Dark Thirty. Leikstjórinn Kathryn Bigelow og handritshöfundurinn Mark Boal fást því áfram við frásagnir af stríðsrekstri Bandaríkjanna og ýmsum afleiðingum hans.

Frásagnarmáti Zero Dark Thirty er umfangsmikill og hraður þar sem skrifstofublækur stjórna ferðinni með tilheyrandi leynimakki og njósnastússi. Eins ótrúlega og það hljómar þá er myndin ekki löðrandi í föðurlandsást og væmni eins og við hefði mátt búast. Stjórnmálamenn og skriffinnar hafa gagnrýnt aðstandendur myndarinnar harðlega fyrir að gera of mikið úr mikilvægi pyntinga fyrir leitina að bin Laden. En um leið og þeir afneita pyntingunum krefjast þeir opinberrar rannsóknar á því hvaða upplýsingar frá CIA kvikmyndagerðarfólkið studdist við þannig að eiginlega hljóta einhver sannleikskorn að felast í því sem ber fyrir augu áhorfenda.

Leitin að bin Laden var erfið og tímafrek þannig að framvinda myndarinnar er hæg en stigmagnast jafnt og þétt. Hver uppgötvunin af annarri mjakar sögunni áfram þangað til hún nær hápunkti í kynngimögnuðu atriði þar sem bin Laden er veginn á náttfötunum. Það mátti heyra saumnál detta í bíósalnum og var undirritaður á ystu brún sætisins alla senuna.

Leikhópurinn í myndinni er vægast sagt frábær með Jessicu Chastain í hlutverki hörkutólsins sem keyrði rannsóknina áfram. Persóna Chastain, Maya, er miðpunktur myndarinnar og leikkonan stígur hvergi feilspor enda hlaut hún tilnefningu til Óskarsverðlaunanna fyrir frammistöðu sína og er vel að henni komin. Áhorfendur fá aldrei að kynnast Mayju utan vinnunnar sem hlýtur að teljast rökrétt þar sem starf sem þetta hlýtur að heltaka hvaða manneskju sem er. Þrátt fyrir þetta er persónan mjög nálæg áhorfandanum og er mjög raunveruleg.

Chastain er umkringd góðum og vönduðum leikurum á borð við Mark Strong, Kyle Chandler, Joel Edgerton og þá sérstaklega Jason Clarke sem stendur sig vel sem yfirmaður Mayu. Þá kemur James Gandolfini fram í stuttu hlutverki sem forstjóri CIA.

Þrátt fyrir að allir viti hvernig Zero Dark Thirty endar er uppbygging hennar ótrúlega þétt, spennandi og áhugaverð og það verður vafalaust spennandi að sjá hvert samstarf Bigelow og Boal leiðir þau í framtíðinni.

Leikstjóri: Kathryn Bigelow
Handrit: Mark Boal
Leikarar: Jessica Chastain, Mark Strong, Kyle Chandler, Joel Edgerton, Jason Clarke, James GandolfiniSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða