A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Arnold Schwarzenegger hefði leikið í The Rock? | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Hvað ef... Arnold Schwarzenegger hefði leikið í The Rock?

4. nóvember '13 12:33 Arnold Schwarzenegger hefði leikið í The Rock?

Þótt ótrúlegt megi virðast þá er spennumyndin The Rock orðin sautján ára gömul. Þessi þrusugóða hasarmynd kom í kvikmyndahús sumarið 1996 og sló umsvifalaust í gegn. Sprengjusérfræðingurinn Michael Bay leikstýrði þeim Nicolas Cage og Sean Connery í þessari hörkumynd sem stendur fyllilega fyrir sínu enn þann dag í dag.

Áður en Cage var ráðinn í annað aðalhlutverkið var vöðvatröllið Arnold Schwarzenegger ofarlega á lista þeirra Jerry Bruckheimer og Don Simpson heitins í hlutverk efnafræðingsins Stanley Goodspeed. Arnold uppljóstraði því í viðtali við frændur okkar hjá Empire fyrr á árinu að Simpson hefði æstur viljað fá hann í myndina. Simpson sýndi það í verki þegar hann ruddist skakkur inn í hjólhýsi Arnolds á tökustað á annarri mynd og reyndi að tala leikarann vinsæla til.

Simpsons átti að hafa veifað handriti myndarinnar framan í Arnold, sem var ekki nema 85 síður og það útkrassað af punktum, en neitaði að leyfa honum að lesa það. „Hérna, kíktu á þetta handrit. En ekki lesa það! Sko, söguþráðurinn er svohljóðandi..." Svona lýsti Arnold látunum í Simpson við Empire og bætti við að hann hefði ekki einfaldlega getað ákveðið að leika í myndinni eftir að hafa heyrt söguþráðinn en ekki fengið að lesa handritið. „Þú vilt ekki leyfa mér að lesa handritið. Afhverju lætur þú það ekki bakast aðeins lengur í ofninum, þróa það meira og við ræðum svo aftur saman," sagði leikarinn og framleiðandinn strunsaði í burtu.

Simpson var á þessum árum alræmdur í Hollywood fyrir fíkniefnaneyslu sína og og stór skammtur dró hann til dauða snemma árs 1996. The Rock var síðasta mynd framleiðandans og var myndin tileinkuð honum.

Hefði Arnold þegið hlutverkið fer það ekkert á milli mála að útkoman hefði orðið önnur en raun ber vitni. Goodspeed var í túlkun Cages stressaður og óöruggur og slíkt hefði einfaldlega ekki farið Arnold vel. Og tilhugsunin um að horfa á Connery að setja ofan í við Schwarzenegger og skipa honum fyrir gengur einfaldlega ekki upp.

Connery í hlutverki hörkutólsins James Mason: Your "best"! Losers always whine about their best. Winners go home and fuck the prom queen.

Arnold sem Goodspeed: Carla waz de phrom qween.

Fólk fær stundum galnar hugmyndir í Hollywood. Sumar verða að veruleika en aðrar rætast sem betur fer aldrei. Í „Hvað ef...?“ rifjar Svarthöfði upp ýmsar gamlar delluhugmyndir og veltir fyrir sér hvernig hefði farið ef þær hefðu komist alla leið í bíó.

Vignir Jón Vignisson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða