A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Bestu Disney-illmennin | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Toppfimm: Bestu Disney-illmennin

10. júlí '14 13:29 Bestu Disney-illmennin

Angelina Jolie er í banastuði í hlutverki nornarinnar Maleficent í samnefndri bíómynd um þessar mundir og í henni holdgerist einn eftirminnilegasti Disney-skúrkur allra tíma með miklum glæsibrag. Svarthöfði fagnar hér langþráðri endurkomu Angelinu í kvikmyndahús með lista yfir bestu Disney-illmennin.


5. sæti - Madame Medusa - The Rescuers
Medúsa er sérlega gráðug og vond kona sem svífst einskis til þess að komast yfir forláta demant sem liggur í svo þröngum helli að fullorðin manneskja kemst ekki þar inn. Hún rænir munaðarlausri stúlku til þess að senda inn í hellinn og er ekki mjög líkleg til þess að leyfa henni að lifa að verkinu loknu. Leikkonan Geraldine Page fór mikinn í hlutverkinu og til þess að undirstrika illsku Medúsu hafði hún tvo gælukrókódíla sér til halds og trausts. Gæti eiginlega verið Bond-skúrkur.


4. sæti - Shere Khan - The Jungle Book
Tígrisdýrið Shere Khan var óhóflega áhugsamur um að drepa mannsungann Mógla í The Jungle Book. Shere Khan hélt öllum dýrum frumskógarins í helgreipum óttans en Mógli naut þess að eiga hugrakka og trausta vini í pardusinum Bagheera og birninum Baloo sem slógu skjaldborg um drenginn unga. Síðan var Shere Khan líka sem betur fer hræddur við eld. Sá frábæri leikari George Sanders, sem meðal annars var eftirminnilegt illmenni í Rebecca eftir Hitchcock, talaði fyrir Shere Khan og skilaði af sér virðulegum, smeðjulegum og um leið banvænum óvini. Það er sko ekki bera einn Khan!
 

3. sæti - Cruella de Vil - 101 Dalmatians
Cruella á flottasta nafnið af öllum þeim ófétum sem hrellt hafa börn og aðalpersónur Disney-myndanna í gegnum áratugina, um það þarf ekki að deila. Sjálf er hún svo auðvitað djöfulleg og ill inn að beini. Er hægt að hugsa sér eitthvað viðbjóðslegra en að ræna 101 dalmatíuhvolpi til þess eins að lóga þeim, flá og búa til geðveikt flottan pels?2. sæti - Maleficent - Sleeping Beauty
Þessi magnaða norn gefur ekkert eftir og brjálast þegar henni er ekki boðið í skírnarveislu lítillar prinsessu. Hún dæmir því prinsessuna til dauða með bölvun sem felur í sér að áður en sólin sest á sextán ára afmælisdegi hennar muni hún stinga sig á snældu... og the rest is history, eins og þar segir. Maleficent býr yfir einhverjum seiðandi kynþokka, hefur, eins og Óðinn forðum, illgjarnan hrafn til skrafs og ráðagerða og getur breytt sér í eldspúandi dreka þegar hún verður virkilega reið. Stórhættuleg kona og frábært illmenni!
 


1. sæti - Professor Ratigan - The Great Mouse Detective

Rottur eru sérlega illa liðnar, ekki síst í Reykjavík þetta sumarið þar sem þær hafa leyst geitunga af sem helstu vágestir sumarsins. Prófessor Ratigan er svar nagdýraheima við þeim magnaða erkifjanda Sherlock Holmes, prófessors Moriarty. Ratigan er skúrkurinn í einni bestu og um leið vanmetnustu Disney-myndinni, The Great Mouse Detective, sem fjallar um ævintýri músarinnar Basil en músin sú deilir húsnæði með Sherlock Holmes og Dr. Watson í Baker Street 221B.

Ratigan er þvottekta illmenni sem hrellir mýsnar í kringum sig með feitri og pattaralegri kisu sem veit fátt betra en að sproðrenna þeim sem móðga hann. Þá hefur hann skuggalega, einfætta leðurblöku á sínum snærum til þess að vinna helstu skítverkin. Sá mikli hrollvekjuleikari Vincent Price talar og syngur fyrir Ratigan með slíkum tilþrifum að ekki þarf að deila um að hér er á ferðinni besta Disney-illmenni allra tíma.

Þórarinn Þórarinsson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða