A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Bestu uppvakningamyndirnar | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Toppfimm: Bestu uppvakningamyndirnar

10. júlí '13 12:31 Bestu uppvakningamyndirnar

Brad Pitt ferðast heimshornanna á milli og berst við uppvakninga í sumarsmellinum World War Z sem er frumsýnd í dag. Í tilefni þess ákvað Svarthöfði að þeyta í eitt stykki toppfimm-lista yfir bestu uppvakningamyndirnar.


5. Zombie 2
Ítalski hrollvekjukóngurinn Lucio Fulci leikstýrði Zombie 2. Myndin kom út árið 1979 og var markaðssett sem sjálfstætt framhald hrollvekjunnar sígildu, Dawn of the Dead, eftir George A. Romero. Hún var meira að segja gerð í óþökk aðstandenda upprunalegu myndarinnar. Mannlaus snekkja (eða svo virðist vera) rekur stefnulaust þar til hún hafnar í New York-borg. Þegar hafnarlögreglan rannsakar málið reynist uppvakningur vera um borð og innan skamms eru blaðamenn komnir á slóð uppvakninganna og rekja uppruna þeirra. Fulci er án efa þekktastur fyrir Zombie 2 en enn þann dag í dag er hún eina uppvakningamyndin þar sem uppvakningur gæðir sér á lifandi hákarli.


4. Shaun of the Dead
Þessi listi væri ekki marktækur ef gaman-uppvakningamyndin Shaun of the Dead væri ekki talin með. Shaun lifir stefnulausu lífi þar sem hann nýtur ekki virðingar fjölskyldu sinnar né samstarfsmanna. Hann á ekki kærustu og allt útlit er fyrir að vinátta hans og meðleigjanda hans sé á síðustu metrunum. Allt þetta skiptir sáralitlu til eða frá þegar uppvakningar gera vart við sig í bænum og þá er gott að hafa krikket-kylfu við hendina. Edgar Wright og Simon Pegg gera þennan frábæragamanhroll þar sem hvorki vantar grínið né blóðsúthellingar.


3. [REC]
Upprennandi fréttakona fylgist með daglegum störfum slökkvuliðsmanna fyrir spænska heimildaþætti. Slökkvuliðsstöðinni berst neyðarkall þar sem öldruð kona er föst í blokkaríbúð en þegar á hólminn er komið leynast óvættir meðal íbúanna í fjölbýlishúsinu. [REC] er án efa eitt besta dæmið um mynd sem byggir frásögnina á fundnu myndefni (e. found footage). Myndin rígheldur frá upphafi til enda og maður kemst ekki hjá því að svitna í lófunum yfir ósköpunum. Ári eftir að [REC] kom út var hún endurgerð í Hollywood og hét þá Quarantine. Þrátt fyrir að myndin væri eiginlega nákvæm stæling á frummyndinni heppnaðist hún ekki nærri því jafn vel og [REC].


2. 28 Weeks Later
Sex mánuðir eru liðnir frá því uppvakningafaraldur reið yfir Bretland. Með hjálp Bandaríkjahers hefur tekist að halda óvættunum frá litlum hluta Lundúna þar sem ósýkti hafast við og reyna að laga sig að lífi í breyttum heimi. En auðvitað brjóta uppvakningarnir sér leið í gegnum varnargirðinguna. Eins og titillinn ber með sér er 28 Weeks Later framhald af 28 Days Later sem Danny Boyle leikstýrði. Undiritaður getur seint talist aðdándi fyrri myndarinnar en framhaldið kom virkilega á óvart og kom með annan vinkil á uppvakningafaraldurinn úr fyrri myndinni enda eru hér á ferðinni mannlegri og viðkunnanlegri persónur. 28 Days Later á dyggan aðdáendahóp en í 28 Weeks Later er margt gert betur. Undirritaður var með hjartað í buxunum í opnunaratriði myndarinnar og það gerist ekki oft.


1. Dawn of the Dead
Hópur fólks hreiðrar um sig í verslunarmiðstöð þegar hægfara uppvakningar herja á mannkynið. Dawn of the Dead er önnur myndin í kvikmyndabálki uppvakningameistarans Georges A. Romero. Sú fyrri var Night of the Living Dead en með henni endurskilgreindi Romero uppvakningana sem fyrirbæri og myndaði þann farveg sem hinir lifandi dauðu renna enn eftir í dægurmenningunni. Romero hefur margsinnis greint frá því að myndin sé samfélagsádeila og gagnrýni á neyslubrjálæði manneskjunnar. Myndin stendur þó fullkomlega fyrir sínu sem spennuhrollur án þess að rýnt sé sérstaklega djúpt í boðskap Romeros. Myndin eldist furðuvel og ber árin 35 vel. Zack Snyder endurgerði myndina með þokkalegri útkomu árið 2004.

Vignir Jón Vignisson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða