A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Bestu útilegumyndirnar | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Toppfimm: Bestu útilegumyndirnar

8. ágúst '13 12:39 Bestu útilegumyndirnar

Á meðan fjöldinn tók verslunarmannahelgina, mestu ferðahelgi ársins, með trompi sat Svarthöfði heima í örygginu í Reykjavík og fékk útrás með því að horfa á fimm klassískar útilegumyndir. Nú er auðvitað alkunna að allt útilegubrölt er varasamt og ávísun á vondan svefn á hörðu undirlagi, blauta svefnpoka, fokin tjöld og biðraðir á illa lyktandi útikamra. Að ekki sé talað um öll þau varmenni sem fara á stjá um verslunarmannahelgar með illt eitt í huga. Í ljósi þessa þarf því engan að undra að útilegur og hryllingsmyndir tengjast sterkum böndum og í raun þurfti góðan vilja til þess að koma tveimur gamanmyndum á listann í stað enn fleiri hryllingsmynda.


5. The Great Outdoors (1988)
Þetta útilegugrín þeirra Johns heitins Candy og Dans Aykroyd er ef til vill ekki „góð“ í þeim skilningi en hún er engu að síður ágætis fjölskylduskemmtun að hætti þessara herramanna. Candy leikur léttlyndan fjölskylduföður sem heldur með fjölskylduna í sumarfrí í huggulegum dal við stöðuvatn. Illu heilli mætir mágur hans, sem Akroyd leikur, með sitt slekti á sama stað. Sá er snobbasni sem á enga samleið með búranum Candy þannig að fríið leysist upp í alls herjar meting og illdeilur þeirra á milli. Enn syrtir svo í álinn þegar regnstormur neyðir fjölskyldurnar til þess að hýrast undir sama þaki.


4. Carry on Camping (1969)
Sennilega ræðst það helst af hversu brenglaðan húmor fólk er með hvort það geti enn haft gaman af hinum léttgeggjuðu, bresku grínmyndum sem kenndar eru við Carry on. Óneitanlega er aðeins farið að slá í neðanbeltishúmor tjallanna en þeir sem eiga minningar um þessar myndir frá þeim árum er RÚV var eitt á sjónvarpsmarkaði á Íslandi hljóta enn að geta ornað sér við þurran perrahlátur hins krumpaða Sidney James. Hér reyna Sid og Bernie að mýkja kærusturnar sínar með því að stinga upp á að þau skelli sér í tjaldferðalag. Leyniplan þeirra er að planta sér á nektarnýlendu og njóta útsýnisins þar. Vitaskuld klúðra þeir þessu öllu og enda á tjaldstæði innan um furðulegasta ferðafólk sem sögur fara af, rugluðum hippum og ástleitnum stúlkum. Það atriði sem lifir í minningu flestra sem séð hafa ósköpin er að sjálfsögðu þegar sú snaggaralega Barbara Windsor skýtur af sér brjóstahaldaranum í áköfum morgunleikfimiæfingum.


3. Eden Lake (2008)
Hér er á ferðinni stórlega vanmetin bresk spennuhrollvekja sem rataði aldrei í kvikmyndahús á Íslandi þótt full ástæða hefði verið til. Kelly Reilly og Michael Fassbender leika hér ungt, ástfangið par sem drífur sig út úr bænum í rómantíska helgarferð. Þau eru varla lögst í sólbað þegar ömurlegt unglingagengi veitist að þeim. Núnigurinn milli þeirra stigmagnast hratt og fyrr en varir er gripið til blóðugs ofbeldis og Fassbender er illa særður. Unnustan leggur þá á æsilegan flótta fyrir lífi sínu um skóglendi í örvæntingarfullri leit að hjálp sem enga virðist vera að finna þannig að hún hefur ekki um annað að velja en snúa vörn í sókn eða deyja á ógeðslegan hátt. Hörkumynd!


2. Evil Dead
Listi yfir góðar útilegumyndir væri vart marktækur ef Evil Dead væri ekki á honum. Í þessari sígildu hrollvekju Sams Raimi snýst kofaferðalag nokkrra ungmenna upp í blóðuga martröð þegar þau vekja fyrir slysni upp illa anda. And the rest is history... eins og þar segir og hér er í raun um móðir allra útileguhryllingsmynda að ræða.


1. Deliverance (1972)
Fjórir vinir úr borginni sem Jon Voight, Burt Reynolds, Ned Beatty og Ronny Cox leika. Hvor öðrum betri. Hugmyndin er að sigla niður á og virða fyrir sér undur náttúrunnar í leiðinni og reyna aðeins á þolrif kyrrsetumannanna. Þeir villast fljótt af leið og lenda upp á kant við ógeðslega, tannlausa sveitalubba, sannkallaða hillbillía, sem hugsa sér gott til glóðarinnar. Skítalabbarnir hafa mestan áhuga á því að misnota borgarbúana kynferðislega og persónu Beattys er nauðgað á meðan hann er á fjórum fótum og látin rýta eins og svín. Sérlega ógeðfelt atriði en hermt er að þarna hafi í fyrsta sinn í bandarískri bíómynd karlmaður sýndur tekinn í óæðri endann. Reynolds hefur aldrei, hvorki fyrr né síðar, verið jafn harður og í Deliverance og sýnir eftirminnilega hversu stutt er í villidýrið í okkur öllum þegar okkur er ógnað. Sígild mynd frá John Boorman sem lifir lengi á fyrrnefndri nauðgunarsenu, Burt og lásboganum að að sjálfsögðu grípandi banjóleik.

Þórarinn Þórarinsson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða