A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Flottustu hryllingsdrápin | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Toppfimm: Flottustu hryllingsdrápin

31. október '13 16:03 Flottustu hryllingsdrápin

Hrekkjavaka er í dag og Svarthöfði ætlar að misnota þetta tilefni til þess að vera sérlega blóðugur og pínu subbulegur í Toppfimm listanum og bjóða upp á fimm eftirlætis dauðasenur hans úr hryllingsmyndum.

Vitaskuld er vonlaust að taka út fimm dráp úr öllum þeim aragrúa sem hefur verið sálgað í hryllingsmyndum í gegnum tíðina og lýsa þau áberandi best. Þannig að hér lætur Svarthöfði eftir sér að tiltaka senur sem eru honum ýmist sérstaklega minnistæðar og honum þykir vænt um, auk þess sem sumar þeirra eru mikilvægar í stærra samhengi og hafa gríðarlegan slagkraft sem hefur bergmálað í gegnum áratugina. Halloween í leikstjórn John Carpenter þarf að sjálfsögðu að komast á blað en þar sem hann Michael okkar Myers er ekkert sérlega frumlegur þar, með búrhnífinn á lofti, er tekin hjáleið til þess að koma honum að.

ATHUGIÐ: Ekki fyrir börn, viðkvæma og þá sem óttast spoilera!

5. Körfuboltaslys eldri borgara í Deadly Friend (1986)

Félagi Wes Craven hefur ýmsa hryllingsfjöruna sopið og þær vægast sagt misbragðgóðar. Framlag hans til hryllingsmyndanna verður seint ofmetið en innan um snilld hans úir og grúir af alls konar rusli sem hefur nú samt oftast einhvern sjarma. Deadly Friend hlýtur að  teljast með því lakara sem okkar maður hefur kokkað upp en myndin er samt sem áður prýðileg skemmtun.

Kristy Swanson leikur Samantha Pringle, ósköp ljúfa og góða unglingsstúlku sem vingast við nýja nágrannann sinn. Sá er fimmtán ára nördi sem á vélmennið BB. Þegar ruddalegur pabbi Samönthu drepur hana reynir nágranninn að framlengja líf vinkonu sinnar með því að græða rafheila BB í höfuð hennar. Eitthvað slær saman vírum þannig að stúlkan verður tröllsterkur og morðóður brjálæðingur sem snýr sér að því að launa öllum sem voru vondir við hana og vin hennar lambið gráa. Og þá fær nú gamla kerlingarskassið Anne Ramsey (The Goonies,Throw Momma from the Train) heldur betur að kenna á því fyrir að hafa gert körfubolta vinanna upptækan.
Stórkostleg sena.


4. Hannibal fær hádegismat í The Silence of the Lambs (1991)

Mannætan og geðlæknirinn Hannibal Lecter er eitthvert allra geðþekkasta skrímsli hryllingsmyndanna. Hér fara tveir fangaverður flatt á því að vanmeta grimmd ófétisins og áhorfendur fá á óþægilegan hátt að horfa uppá hverslags óargadýr bærist undir fáguðu yfirborði listhneigða herramannsins sem nýtur þess að hlusta á sígilda tónlist, og éta fólk og skola því niður með eðalvínum.


3. Janet fer í sturtu í Psycho (1960)

Um þetta sígilda atriði þarf ekki að hafa mörg orð enda tímalaus snilld og einhver þekktasta sena vestrænnar kvikmyndasögu. Sturtuatriðið skýtur fólki enn skelk í bringu rúmlega hálfri öld eftir að Alfred Hitchcock sendi Janet Leigh í sturtu á Bates-mótelinu. Áhrifamáttur senunnar er ekki síst merkilegur í ljósi þess að hnífurinn sést aldrei snerta fórnarlambið. En fiðlurnar ganga mun lengra.

Senan er annar ekki síst merkileg fyrir þær sakir að þarna stimplar Hitchcock „slasherinn“ heldur betur inn, hefur búrhnífinn í öndvegi sem morðvopn og kynnir alvöru „scream queen“ til leiks.


2. Skelfileg meyfórn í The Wicker Man (1973)

The Wicker Man er snilldarhrollvekja og einhver allra besta mynd sem gerð hefur verið í þeirri deild. Hún er óþægileg og ógleymanleg en samt er atburðarásin hæg og engar flugeldasýningar í framvindunni. Hér er ekki gert út á ódýr bregðibrögð og viðbjóð, heldur eru ókennileikinn og undirliggjandi ógn mögnuð upp með ótrúlegum og látlausum tilþrifum. Og frábærum leik, ekki síst hryllingskóngsins Christopher Lee og Edwards Woodwards.

Woodward leikur réttsýnan og sannkristinn lögreglufulltrúa, hreinan svein, sem kemur til afskekktrar skoskrar eyju til að rannsaka dularfullt hvarf ungrar stúlku. Áður en hann veit af er hann flæktur í blekkingarvef sem endar með að hann fær stefnumót með The Wicker Man í fyrnasterku lokaatriði sem hefur svo djúpstæð áhrif á mann, að maður getur einhvern veginn ekki hugsað sér að sjá þessa kynngimögnuðu mynd aftur.

Í vonlausri endurgerð The Wicker Man, með Nicolas Cage í aðalhlutverkinu, var reynt að poppa lokaatriðið upp með alls konar pyntingum og píslum sem björguðu engu en sýna hversu þessi sena er ótrúlega sterk.


1. Jennings verður höfðinu styttri í The Omen (1976)

Satan og hyski hans sýndi magnaða hugmyndaauðgi og útsjónarsemi þegar kom að því að stúta öllum þeim sem ógnuðu öryggi hins unga Anti-Krists, Damiens Thorn. Drápin í The Omen eru hvert öðru flottara og í raun væri hægur vandi að setja saman sannfærandi topptíu-lista einungis með djöfullegum drápum úr The Omen og Damien: Omen II. Þetta atriði gnæfir samt yfir öllum öðrum og er bara flottasti dauðdagi allra tíma. Ótrúlega snoturt hvernig fljúgandi gluggarúðan sneiðir hausinn af David Warner í hlutverki ljósmyndarans Jennings.

Höfuðið hringsnýst eins og handbolti í lausu lofti yfir glerinu sem hefur klofið það frá búknum og síðan endar það í jörðinni þar sem helgríma Jennings speglast í glerbroti. Dæmalaus snilld!

... og sú sem slapp

Öskurprinsessan hittir Michael í Halloween (1978)

Það er ekki hægt að láta þennan lista fara án þess að Halloween eftir John Carpenter komi við sögu. Þessi sígildi „slasher“ kallast skemmtilega á við Psycho með ýmsu móti. Michael hefur til dæmis tekið upp þann ósið Normans Bates að nota veglegan búrhníf til þess að sálga fórnarlömbum sínum. Og svo er Jamie Lee Curtis vitaskuld dóttir Janet Leigh sem var drepin í sturtunni í Psycho, hér er því réttborin öskurprinsessan mætt til leiks.

Jamie sleppur þó, ólíkt móður sinni, lifandi úr hildarleiknum á Hrekkjavökukvöldinu í Haddonfield. Hún er því holdgerfingur hins merkilega fyrirbæris „the final girl“ í hryllingsfræðunum en hún er það eina sem stendur á milli morðingjans og áhorfenda. Svo lengi sem hún lifir er okkur óhætt en þegar henni hefur verið fargað snýr morðinginn sér að þér.

Njótið á meðan tími gefst til. Michael kemur heim í kvöld!

Vignir Jón Vignisson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða