A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Gandolfini-myndir sem þú verður að sjá | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Toppfimm: Gandolfini-myndir sem þú verður að sjá

27. júní '13 18:02 Gandolfini-myndir sem þú verður að sjá

Leikarinn frábæri James Gandolfini verður til grafar borinn í dag. Frábær túlkun hans á mafíósanum Tony Soprano í sjónvarpsþáttunum The Sopranos mun halda minningu hans á lofti um ókomna tíð enda eru leikarinn og persónan tengd órjúfanlegum böndum. Gandolfini lék þó í fjölda kvikmynda og þá alls ekki endilega í aðalhlutverkum enda hófst ferill hans tiltölulega seint en hann var 37 ára þegar The Sopranos hófu göngu sína.

Gandolfini hefur hins vegar oft átt frábæra spretti í aukahlutverkum og slíkt er einmitt tilfellið með allar þessar fimm myndir sem Svarthöfði mælir eindregið með að allir sannir aðdáendur leikarans láti ekki fram hjá sér fara. Gandolfini var þungavigtarleikari í tvennum skilningi og setur eftirminnilegan svip á allar þessar myndir og sýnir hversu fjölhæfur hann í raun var þótt hann verði alltaf Tony Soprano í hugum okkar.


5. The Mexican (2001)
Þessi spennumynd Gore Verbinski er ekkert sérstaklega góð. Eiginlega bara frekar stefnulaus og leiðinleg og Gandolfini stendur upp úr eins og klettur og lyftir henni upp. Brad Pitt og Julia Roberts eru í aðalhlutverkunum og eiga ekki roð við hinum þétta Gandolfini.
Pitt leikur lánlausan gaur sem vinnur fyrir glæpaforingja og er falið að ferja forláta byssu, sem er kölluð The Mexican, til einmitt Mexíkó. Hann er einnig að reyna að bjarga sambandinu við kærustuna sína, sem Roberts leikur, en hún gerir skilyrðisæausa kröfu um að hann snúi baki við glæpalífinu. Vinnuveitandi Pitts treystir honum mátulega og sendir leigumorðingjann Leroy, sem Gandolfini leikur, á eftir honum. Leroy er kaldrifjaður en samt mjúkur inn við beinið og pukrast með samkynhneigð sína. 
Gandolfini er alveg frábær og skilar morðingjanum með mannlegu veikleikana fullkomlega. Hann er hér vissulega á svipuðum slóðum og í The Sopranos, þar sem Leroy er morðingi sem getur þó auðveldlega sýnt á sér mýkri hliðar og Leroy er sá eini sem skilur eitthvað eftir sig í myndinni.

4. Crimson Tide (1995)
(Það var ekki til mynd af Gandolfini í Crimson Tide svo hér er mynd af honum í sundlaug)
Önnur myndin sem Gandolfini leikur í undir stjórn Tonys heitins Scott en þær urðu fjórar áður en yfir lauk ef The Last Boyscout er talin með en þar lék hann handbendi krimmans Marcones en var ekki getið á kreditlista. Hér segir frá uppreisnarástandi um borð í kjarnorkukafbáti þegar undirmenn skipherrans telja sig ekki geta fylgt fyrirmælum hans. Gene Hackman leikur kafteininn en Denzel Washington er æðsti undirmaður hans og sá sem stendur uppi í hárinu á karlinum Gandolfini er þarna í litlu hlutverki en setur sterkan svip á myndina og þarna sést glitta aðeins í Tony Soprano en persóna hans er skaphundur mikill og stutt á milli hláturs og æðiskasta.

3. The Man Who Wasn't There (2001)
Þessi hægfara en frábæra noir-mynd þeirra Coen-bræðra er með betri myndum þeirra. Hér mæðir mest á Billy Bob Thornton í hlutverki rakara sem reykir sígarettur í gríð og erg, lætur sér leiðast og grunar eiginkonu sína, sem Frances McDormand leikur, um að vera sér ótrú. Gandolfini leikur manninn sem Thornton hefur grunaðan um að halda við konu sína og viðskipti þeirra eiga eftir að draga dilk á eftir sér.
Myndin er frábærlega leikinn þannig að hér þarf Gandolfini ekki að bjarga neinu en er frábær viðbót við öflugan leikhópinn og skilar sínu með eftirminnilegum hætti. Svo er hann líka alveg ferlega flottur í svart/hvítu.

2. Killing Them Softly (2012)
Hér koma þeir aftur saman Pitt og Gandolfini í áleitinni og vægðarlausri glæpamynd. Pitt leikur hörkutól mikið sem sinnir skítverkum fyrir glæpasamtök og leggur mikinn metnað í að drepa, þá sem honum er falið að fjarlægja, með hægð. Hann er gerður út af örkinni til þess að koma jafnvægi á undirheima eftir rán í spilavíti og vei þeim sem komu þar að málum. Hann hóar í gamlan félaga, sem Gandolfini leikur, og biður hann um að leggja sér lið með því að farga einum þeirra sem þurfa að gjalda fyrir ránið og afleiðingar þess. Þegar persóna Gandolfinis mætir á staðinn kemur á daginn að hann er heillum horfinn, fárveikur alkóhólisti sem er ekki skugginn af sjálfum sér miðað við það sem hann var þegar hann var upp á sitt besta í drápunum. Gandolfini fangar angist fyllibyttunnar snilldarlega og þótt hann komi við sögu í fáum atriðum lifir minningin um útbrunna leigumorðingjann lengi.

1. True Romance (1993)
Margir áttu sín fyrstu kynni af Gandolfini í þessari sígildu spennumynd Scotts, sem gerð var eftir handriti Quentins Tarantino, og þau kynni voru í meira lagi eftirminnileg. Gandolfini er hér í smáhlutverki og lætur aðeins til sín taka í einu atriði en það atriði er sterkasta atriði myndarinnar og situr lengi í manni.
True Romance er stjörnum prýdd en þar koma við sögu Dennis Hopper, Christopher Walken, Brad Pitt, Chris Penn, Val Kilmer, Gary Oldman og svo mætti lengi telja. Í forgrunni eru svo Patricia Arquette og Christian Slater í hlutverkum kærustuparsins Alabama og Clarence. Þau stela fyrir slysni ferðatösku fullri af dópi sem réttir eigendur, ósvífnir mafíósar, ætla sér að endurheimta hvað sem það kostar.
Gandolfini leikur Virgil, einn útsendara glæpamannanna. Hann hefur uppi á Alabama á hótelherbergi og reynir að berja uppúr henni hvar kærastinn og dópið séu niðurkomin. Þetta atriði er vægast sagt ofbeldisfullt og illskan lekur af Gandolfini á meðan hann lúskrar á Arquette sem tekur á móti honum af öllum kröftum. Grimm, ljót og ógleymanleg sena og sterkur fyrirboði um það sem koma skyldi löngu síðar með Tony Soprano.

Þórarinn Þórarinsson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða