A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

O.J. Simpson hefði leikið The Terminator | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Hvað ef... O.J. Simpson hefði leikið The Terminator

18. janúar '12 18:41 O.J. Simpson hefði leikið The Terminator

Arnold Schwarzenegger í hlutverki The Terminator er að Darth Vader frátöldum lang svalasti bíóskúrkur allra tíma. Maður var skíthræddur við þetta fermur málhalta, vélvædda vöðvabúnt í biker-leðurjakkanum þegar maður svindlaði sér ungur á The Terminator í Háskólabíói árið 1984 og það er ekki laust við að T-800 geti enn vakið hjá manni gamlan hroll þegar hann birtist manni í draumi.

Þrátt fyrir takmarkaða leikhæfileika var austurríska vaxtaræktartröllið eins og skapað í hlutverkið enda hefur Arnold líklega aldrei, fyrr né síðar, verið í hlutverki þar sem allir annamarkar á honum sem leikara eru beinlínis til bóta eins og í Tortímanda James Camerons. Tilhugsunin um einhvern annan í hlutverkinu er auðvitað galin en samt var síður en svo sjálfgefið að Arnold fengi rulluna.

Stúdíóið sótti fast að fá hina rómuðu ruðningshetju og leikara O.J. Simpson í hlutverk Tortímandans en sem betur fer tók Cameron það ekki í mál og þar sem hann er frekari en andskotinn tókst honum að ýta Simpson út af borðinu. Hann hafnaði O.J. fyrst og fremst vegna þess að hann sagðist bara ekki sjá illmenni og morðingja í kappanum. Sagan átti að vísu heldur betur eftir að sanna að Cameron er líklega ekki mesti mannþekkjari í heimi þar sem O.J. tók sig til ellefu árum síðar, árið 1995, og slátraði eiginkonu sinni Nicole Brown og ástmanni hennar. Simpson reyndist þannig alvöru illmenni ólíkt Arnold sem þykir nú frekar góður gæi þótt hann hafi stimplað sig inn sem eðal illmenni árið 1984. Eða eins og Cameron orðaði það sjálfur síðar: „Ég þekkti O.J. Simpson ekki neitt... Ég vissi ekki að hann myndi síðar myrða eiginkonu sína og verða hinn eini sanni Tortímandi.“

O.J. var ekki sá eini sem kom til greina í hlutverkið og á tímabili hugðist Cameron nota þann fína leikara Lance Henriksen í hlutverkið. Henriksen er vel sjóaður í illmennum og lék til dæmis einn af gæslumönnum Damiens, sonar Satans, í Damien: The Omen II. Hann hefði vissulega verið skömminni skárri en O.J. en hefði auðvitað aldrei náð að fylla jafn vel í leddarann og Schwarzenegger. Cameron dubbaði Henriksen samt upp í gervi Tortímandans og lét hann ryðjast inn á fund í kvikmyndaverinu í fullum herklæðum til þess að skjóta baunateljurunum þar skelk í bringu og sannfæra þá um að Tortímandinn væri frábær hugmynd.

Henriksen endaði síðan í litlu hlutverki rannsóknarlöggu í The Terminator og Schwarzenegger fékk það verkefni að kála Söru Connor and the rest is history eins og þeir segja í útlandinu. Henriksen og Cameron héldu samstarfi sínu þó áfram og Cameron lét Henriksen leika vélmenni með mennskt yfirbragð, Bishop, í Aliens nokkru síðar.

En hvað ef O.J. hefði lekið The Terminator? Þá væri myndin fyrir það fyrsta ekki tímalaus klassík þar sem, að öllum öðrum ólöstuðum, ber Arnold myndina uppi á sínum breiðu herðum. Schwarzenegger er Tortímandinn og við værum ekkert að ræða þessa tæplega 30 ára gömlu mynd ef Orenthal James Simpson hefði leikið aðalhlutverkið. O.J. er meira svona seinheppin og glötuð lögga sem gerir ekki annað að slasa sig og hálf drepast í The Naked Gun.

Ekki er þó loku fyrir það skotið að The Terminator með O.J. hefði náð ákveðnum „cult status“ eftir að morðæðið rann á leikarann en það væri ekkert í líkingu við þann goðsagnarkennda ljóma sem umlykur myndina sem er alltaf jafn frábær. Þá ber að hafa í huga að ef O.J. hefði landað hlutverkinu þá hefði það komið í hlut Arnolds að leika hermanninn Kyle Reese sem elti Tortímandann til fortíðar til þess að bjarga Söru. Michael Biehn skilaði þeirri persónu með miklum sóma og var mátulega vanmáttugur andspænis óstöðvandi drápsvélmenni Arnolds. Hins vegar hefði verið eitthvað stórkostlega bogið við það að sjá O.J. Simpson tuska hálftröllið Schwarzenegger til í hlutverki Reese.

Þetta fór bara allt nákvæmlega eins og það átti að fara enda hefði Arnold verið alveg glataður Kyle og hefði líklega náð að sökkva myndinni einn síns liðs án aðstoðar O.J. Kyle talar nefnilega ansi mikið í myndinni og við skulum bara viðurkenna að það fer Arnie best að þegja eða segja sem minnst þar sem hann er vissulega sterkur í „one linerunum“.

Ef O.J. Simpson hefði leikið Tortímandann værum við ekki ennþá að segja „I´ll be back.“ Við O.J. var því einfaldlega ekkert annað að segja en:  „Hasta la vista, baby.“

Fólk fær stundum galnar hugmyndir í Hollywood. Sumar verða að veruleika en aðrar rætast sem betur fer aldrei. Í „Hvað ef...?“, nýjum pistlum hér á Svarthöfða, rifjum við upp ýmsar gamlar delluhugmyndir og veltum fyrir okkur hvernig hefði farið ef þær hefðu komist alla leið í bíó.

Þórarinn Þórarinsson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða