A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Sean Connery hefði leikið Gandalf? | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Hvað ef... Sean Connery hefði leikið Gandalf?

25. janúar '12 11:18 Sean Connery hefði leikið Gandalf?

The Lord of the Rings-þríleikurinn eftir J.R.R. Tolkien er einn vinsælasti bóka- og kvikmyndabálkur allra tíma. Myndirnar þrjár í leikstjórn Peters Jackson slógu svo sannalega í gegn en þær höluðu inn tæpa þrjá milljarða dala í kvikmyndahúsum um allan heim. Gagnrýnendur voru á einu máli um gæði myndana og hlutu þær í það heila 30 Óskarstilnefningar og unnu alls 17 styttur.

Erfitt væri að hugsa sér þríleikinn öðruvísi en við þekkjum hann í dag en það reyndist ekki auðvelt að koma myndunum í tökur. Þrjár myndir í einu þótti of stór biti og eftir áralanga baráttu við framleiðslufyrirtæki og fjárfesta komu hugmyndir eins og að slá bókunum þremur saman í tvær kvikmyndir og þeim yrði haldið undir tveimur tímum í lengd. Sem betur fer þá kom það ekki til greina að hálfu Jacksons.

Önnur hugmynd var sú að til þess að tryggja góða aðsókn yrði að tefla fram mjög frægum og þekktum leikurum. Alvöru stórstjörnum. Eins og alþjóð veit þá fór breski leikarinn Ian McKellen á kostum í hlutverki Gandalfs enda maðurinn fullkominn í hlutverkið. Öðrum leikara var þó boðið hlutverkið áður en röðin kom að McKellen, engum öðrum en Sir Sean Connery.

Sjálfum James Bond var boðið að fara með hlutverk galdamannsins Gandalfs, þar sem framleiðendurnir og New Line Cinema, voru staðráðnir í því að Connery gæti dregið fólk í bíó. Það gekk illa að sannfæra Connery um ágæti handritsins og sagði hann í viðtölum að hann hefði einfaldlega ekki skilið viðfangsefnið. Menn voru þó tilbúnir til þess að ganga ansi langt til þess að tryggja sér grænt ljós á framleiðslu þríleiksins og í örvæntingu voru Connery boðin 15% af heildarinnkomu myndanna á heimsvísu. Hefði Connery slegið til hefði upphæðin á launatékka hans verið sú hæsta sem nokkur leikari hefur fengið greidda fyrir eitt hlutverk þar sem þessi 15% urðu þegar upp var staðið eitthvað í kringum 400 milljónir dala.

Tveimur árum eftir að Fellowship of the Ring leit dagsins ljós ákvað Connery að slá til og leika í kvikmynd eftir handriti sem hann skildi ekkert frekar en The Lord of the Rings-þríleikinn. Sú kvikmynd var The League of Extraordinary Gentlemen. Eftir erfitt framleiðsluferli og að hafa úthúðað leikstjóra myndarinnar opinberlega sagði Connery þetta gott og tilkynnti að hann væri hættur að leika, hann væri kominn á eftirlaunaaldur og hann saknaði einskis.

Það er svo sannalega erfitt að sjá fyrir sér Connery í hlutverki Gandalfs enda gerði McKellen hlutverkið ódauðlegt með magnaðri frammistöðu sinni. Þó væri gaman að sjá Connery aftur á hvíta tjaldinu enda er þar á ferðinni fyrsta flokks leikari.

*sagt með skoskum hreim* „Youh shall not pwasshh"

Fólk fær stundum galnar hugmyndir í Hollywood. Sumar verða að veruleika en aðrar rætast sem betur fer aldrei. Í „Hvað ef...?“, nýjum pistlum hér á Svarthöfða, rifjum við upp ýmsar gamlar delluhugmyndir og veltum fyrir okkur hvernig hefði farið ef þær hefðu komist alla leið í bíó.

Vignir Jón Vignisson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða