A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Skelfilegustu grímurnar í kvikmyndum | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Toppfimm: Skelfilegustu grímurnar í kvikmyndum

17. júlí '13 16:17 Skelfilegustu grímurnar í kvikmyndum

Kolbrjálaðir morðingjar hryllingsmyndanna hafa ríka tilhneigingu til þess að hylja andlit sín með grímum af ýmsu tagi. Í spennumyndinni The Purge sem sýnd er í kvikmyndahúsum þessa dagna mætir hópur siðblindra yfirstéttarunglinga heim til Ethans Hawke og ógna lífi og limum hans og fjölskyldu hans. Ófétin bera grímur sem í raun væru ef til vill ósköp sakleysislegar en í þessu samhengi verða þær vægast sagt hrollvekjandi.

Svarthöfði tínir hér til fimm sígildar grímur sem vakið hafa látið kalt vatn renna milli skins og hörunds bíógesta. Hér var vitaskuld af nógu að taka og margir verðugir urðu útundan en engum ætti þó að detta til hugar að væna Svarthöfða um hlutdrægni þótt hann sé þarna sjálfur á lista.



5. Smiley (2012)
Hryllilegar grímur geta fleytt óvættum hrollvekjanna langt. Smiley er að vísu óttalegt drasl en grímann er hræðileg. Sem í þessu tilfelli er hið besta mál.


4. Leatherface - The Texas Chainsaw Massacre (1974)
Enginn vill mæta úrkynjaða Leðurfésinu í vondi skapi með vélsögina á lofti og þau ungmenni sem urðu á vegi hans mega teljast nokkuð góð að hafa ekki einfaldlega lamast af ótta þegar þau horfðust í augu við myrkar holurnar á grímu morðingjans. Til þess að toppa viðbjóðinn er gríman bútasaumur ógeðsins úr húðum fyrri fórnarlamba hans.


3. Darth Vader- Star Wars (1977)
Svarthöfði er kannski ekkert sérstaklega ógnvekjandi í dag. Sérstaklega ekki þar sem hann dó laus undan oki hins illa. Og hann fellur ekkert sérstaklega vel í þann hóp sem hér gerir sig gildandi en það breytir því ekki að hann er eitt öflugasta illmenni kvikmyndasögunnar og hefur vakið ugg í brjóstum krakka við fyrstu kynni í rúma þrjá áratugi. Þessi framandi gríma, andadrátturinn og röddin. Vader er rosalegur og gæti auðvitað afgreitt allan þann skríl sem er með honum á listanum án þess svo mikið sem lyfta litla fingri.

2. Ghostface – Scream (1996)
Þeir eru orðnir nokkrir geðsjúklingarnir sem hafa falið sig á bak við draugagrímuna í Scream-myndunum fjórum. Gríman varð klassík um leið og hún sást fyrst í Scream enda eitthvað sérlega ónotalegt þegar þetta hvíta andlit birtist skyndilega í myrkrinu. Þessi teygða og afbakaða vísun í Ópið eftir Munch er snilldin ein og bergmálar skemmtilega bæði titil myndarinnar og örvæntingaróp allra þeirra sem verða fyrir hnífslagi draugsa.


1. Michael Myers – Halloween (1978)
Gríma af andliti sjarmatröllsins William Shatner, snúin við og máluð hvít, er bara alls ekkert þokkafull heldur bara skelfileg. Michael Myers hefur sálgað ungmennum, oftast nær með búrhnífinn góða á lofti, í ótal Halloween-myndum og sú fyrsta er löngu orðin klassík. Svipbrigðalaust náhvítt andlitið, þrúgandi þögnin og hvernig Michael röltir í hægðum sínum, ískaldur á eftir fórnarlömbum sínum gerir hann að einum áhrifamesta morðingja hryllingsmyndanna. Hann er „illskan í sinni tærustu mynd“, eins og geðlæknirinn Doctor Loomis lýsir honum og það fer ekkert á milli mála þegar hann starir á þig með svartholunum tveimur í hvítu andlitinu. Og svo er hann ódrepandi í ofanálag!

Þórarinn Þórarinsson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða