A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Þegar Mia ætlaði að klóra augun úr Woody | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Skjalasafn Svarthöfða: Þegar Mia ætlaði að klóra augun úr Woody

3. febrúar '14 13:36 Þegar Mia ætlaði að klóra augun úr Woody

Woody Allen og Mia Farrow áttu langt samband og Mia lék í fjölda mynda leikstjórans og tók þannig við af Diane Keaton sem músa Allens. Sambandi þeirra lauk með látum 1992 þegar í ljós kom að Allen átti í leynilegu ástarsambandi við Soon-Yi, nítán ára gamla ættleidda dóttur Miu.

Farrow og Allen tókust harkalega á fyrir dómstólum þar sem stór orð og ásakanir gengu á báða bóga. Allen sagði Miu meðal ananrs hafa ætlað að klóra úr sér augun, drepa hann eða láta drepa hann.

Mia sakaði Woody aftur á móti um að hafa misnotað Dylan, sjö ára dóttur hennar, kynferðislega. Farrow sjálf tjáði sig ekki um ásakanirnar við fjölmiðla til að byrja með en móðir hennar Maureen O´Sullivan lét fyrrverandi tengdasoninn fá það óþvegið: „Allen er sjúkur maður, hann er hættulegur. Það er viðbjóðslegt hvernig hann hefur komið fram við börnin þótt hann eigi að heita faðir þeirra. Mia bjargaði þessum börnum frá vændi í heimalöndum þeirra en svo lenda þau í höndunum á þessum barnanauðgara.“

Þetta rúmlega tuttugu ára gamla mál komst í hámæli um helgina þegar Dylan birti opið bréf þar sem hún lýsti því hvernig Allen misnotaði hana sjö ára. Kveikja bréfsins er talin viðurkenning sem Allen hlotnaðist á Golden Globe-hátíðinni á dögunum fyrir ævistarf sitt í kvikmyndum. Dylan sendir einnig leikurum sem starfað hafa með Allen tóninn og stillir þeim upp við vegg. Spyr Cate Blanchett, Louis C.K. og Alec Baldwin hvernig málið horfði við þeim ef dóttir þeirra hefði átt í hlut. Þá spyr hún Diane Keaton hvort hún hafi gleymt sér og hvernig þeim Emmu Stone og Scarlett Johansson ef þær hefðu lent í þessu í hennar stað.

Soon-Ji, fósturdóttir Miu, þáverandi ástkona Allens og síðar eiginkona hans, kom Allen til varnar í forræðisdeilunni sem fylgdi í kjölfar skilnaðar Woodys og Miu og sagði móður sína meðal annars hafa níðst á barnahópnum sem hafi fengið að kenna á skapofsa hennar.

Miu var síðar dæmt forræði yfir börnunum og dómarinn lét Allen heldur betur heyra það. Hann var hins vegar aldrei sakfeldur í misnotkunarmálinu og ferill hans beið ekki mikla hnekki og hann hefur framleitt sína einu mynd á ári nánast órofið frá því málinu lauk.

Dylan sjálf hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið áður og Allen lítur ansi illa út eftir að hún birti bréf sitt. Þeim fjölgar nú sem telja Allen hafa gerst brotlegan gagnvart Dylan en að sama skapi hefur vammlaust fólk stigið fram honum til varnar og þar á meðal nefna Robert B. Weide, sem gerði ekki alls fyrir löngu rómaða heimildarmynd um Allen þar sem þessi duli og ljósfælni maður var óvenju opinskár. Weide bendir á ýmsar rangfærslur í bréfi Dylan.

Sjálfsagt fæst enginn botn í þetta flókna og erfiða mál núna frekar en fyrir tveimur áratugum og Woody fæst vart dæmdur úr þessu og mun heldur aldrei getað hreinsað sig af grun um barnaníð. Hitt er hins vegar víst að ótal dyggir aðdáendur kvikmynda hans standa á gati þessa dagana og vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.

Skjalasafn Svarthöfða
Inn af ganginum í Helstirninu, þar sem lúguna að sorpressunni ógurlegu er að finna, er Svarthöfði með skjalasafn sitt í þröngri og dimmri kompu á vinstri hönd. Þar liggja ósköpin öll af ýmsum gögnum og heimildum sem gott getur verið að grípa til þegar taka þarf á andstæðingum og nota eitthvað aðeins mildara gegn þeimn en hugrænt kæfingartak.

Ýmislegt áhugavert og ekki síður skemmtilegt kom upp úr kössunum við hefðbundna vorhreingerningu og Svarthöfði ætlar því að vera með sögustund fyrir lesendur sína með reglulegu millibili í framtíðinni.

Þórarinn Þórarinsson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða