A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Bestu Sherlockarnir | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Toppfimm: Bestu Sherlockarnir

20. janúar '14 14:18 Bestu Sherlockarnir

BBC sýndi þriðja og síðasta þáttinn í þriðju seríu hinna stórgóðu þátta Sherlock fyrr í mánuðinum. Þar fara þeir Benedict Cumberbatch og Martin Freeman með himinskautum sem Sherlock Holmes og Dr. Watson í snilldarlegum útfærslum á sögum Sir Arthurs Conan Doyle sem færðar hafa verið til Lundúna vorra tíma.

Líklega hefur engin skáldsagnapersóna verið kvikmynduð jafn oft og Sherlock Holmes og leikararnir sem hafa spreytt sig á spæjaranum sérlundaða eru orðnir ansi margir og meðal annarra má nefna Christopher Plummer, Basil Rathbone, Michael Caine, Jonathan Pryce, Christopher Lee, Charlton Heston, Edward Woodward, Frank Langella, Peter Cushing og Ian Richardson.

Langþráð endurkoma þeirra Freemans og Cumberbatch í Sherlock er sérlega vel heppnuð og í gleðivímunni hefur Svarthöfði hér tekið saman lista yfir fimm framúrskarandi Sherlocka.


5. sæti - Robert Downey Jr.
Leikstjórinn Guy Ritchie poppaði Sherlock heldur betur upp í bíómyndinni Sherlock Holmes frá 2009. Robert Downey, Jr. lék Sherlock, löðrandi í sínum ómótstæðilega sjarma, og kom með ansi ferska sýn á spæjarann. Þessi Holmes er nokkuð frábrugðinn Holmes eins og við höfum vanist honum. Hér er hann glannalegur galumgosi og full mikill kvennaljómi og ansi hreint mikill töffari. Watson, í meðförum Jude Law, er líka heldur harðari en hann hefur verið hingað til og jafnvægið í samskiptum félaganna er meira þarna en gengur og gerist.4. sæti - Benedict Cumberbatch
Cumberbatch er algerlega frábær Sherlock í BBC-þáttunum Sherlock. Öll skemmtilegustu andfélagsleg einkenni Holmes blómstra í meðförum leikarans sem túlkar þennan „high-functioning sociopath“ með eftirminnilegum stæl.
 


3. sæti - Jonny Lee Miller
Sherlock Holmes virðist eiga brýnt erindi við samtímann í ljósi vinsælda tveggja, um margt ólíkra, sjónvarpsþátta um Holmes á 21. öldinni.  Á meðan Cumberbatch starfar í London leysir Johnny Lee Miller sakamál í New York í þáttunum Elementary. Hér er mikið gert út á dópfíkn Sherlocks og hann kynnist Dr. Joan Watson, sem Lucy Liu leikur, þegar henni er falið að gæta þess að hann byrji ekki aftur í neyslu. Líkamstjáning og nettir asperger-taktar Lee Millers eru stórskemmtilegir og þótt margt sé líkt með 21. aldar Sherlockunum Cumberbatch og Miller þá hefur sá síðarnefndi vinninginn.
 


2. sæti - Barrie Ingham sem Basil
Disney-teiknimyndin The Great Mouse Detective frá 1986 er alveg prýðilegt tilbrigði við Holmes-stefið. Músin Basil býr í Baker Street 221b þar sem þeir hafast einnig við Sherlock Holmes og Watson. Samskipti músarinnar við tvíeykið eru þó engin en Basil tekur Sherlock sér til fyrirmyndar í einu og öllu, klæðaburði, fiðluleik og vitaskuld fyrst og fremst glæparannsóknum. Fyrir tilviljun kynnist Basil músinni Dr. David Q. Dawson og saman reyna þeir að koma í veg fyrir valdarán erkióvinar Basils, rottunnar Prófessor Ratigan, en sá ætlar sér að ryðja músadrottningunni úr vegi og stýra konungdæminu í gegnum vélrænan tvífara hennar. Vincent Price talar fyrir Ratigan, fer á kostum og stelur myndinni á köflum þótt Basil standi fyllilega fyrir sínu.
 


1. sæti - Jeremy Brett
Bresku sjónvarpsþættirnir The Adventures of Sherlock Holmes, The Return of Sherlock Holmes, The Case-Book of Sherlock Holmes og The Memoirs of Sherlock Holmes gengu á árabilinu 1984 til 1994. Í þáttunum voru 42 sögum Doyles gerð skil í 41 þætti. Leikarinn Jeremy Brett lék Sherlock með miklum tilþrifum og varla er á neinn hallað þótt því sé haldið fram, fullum fetum, að hann sé besti Holmesinn. Brett túlkar Sherlock nákvæmlega eins og maður sá hann fyrir sér við lestur bóka Doyles og að sama skapi er Watson, blessaður, hálf utangátta og alltaf jafn forviða á gáfum og glöggskyggni félaga síns.

Þórarinn Þórarinsson


Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða