Kvikmyndir sem Baltasar Kormákur hefur ætlað að gera

Baltasar Kormákur hefur í nógu að snúast þessa dagana. Hann er að leggja lokahönd á ævintýramyndina Everest með þeim Jake Gyllenhaal, Jason Clarke og Josh Brolin og er á kafi í undirbúningsvinnu fyrir sjónvarpsseríuna Ófærð með Ólafi Darra Ólafssyni. Ekki nóg með það þá er hann einnig að undirbúa kvikmyndina Reykjavik sem hverfist um Höfðafundinn fræga sem flýtti fyrir endalokum kalda stríðsins en Michael Douglas kemur til með að leika í myndinni. Þá tilkynnti Universal Pictures að samningur hafi náðst við Baltasar um gerð víkingamyndarinnar Vikingr sem hann hefur unnið að í ein tíu ár.

Baltasar framleiðir, leikstýrir, skrifar og leikur í kvikmyndum sínum, og telst það ansi magnað í ljósi þess að hann er með annan fótinn á Íslandi og hinn í hverfulum heimi Hollywood. Það er ekki annað hægt en að dás að hæfileikunum, eljunni og hörkunni sem Baltasar býr yfir eins og sjá má á stórum og miklum verkefnum sem þúsundþjalasmiðurinn hefur skilað af sér og ætlar að koma í verk.

Svarthöfði ákvað að gramsa í fréttasarpnum og taka fyrir þau verkefni í toppfimm lista sem Baltasar hefur unnið að, hvort sem þau hafa setið á hakanum fyrir önnur verkefni eða einfaldlega verið blásin af.


5. sæti – The Bird Artist
Baltasar horfði til Kanada árið 2003 er hann ætlaði að kvikmyndina bókina The Bird Artist eftir Howard Newman. Bókin var gefin út árið 1994 og er best lýst sem dramatískri ástarsögu sem gerist á Nýfundnalandi uppúr 1900. Eitt stærsta kvikmyndafyrirtæki Kanada, Alliance Atlantis, ætlaði að framleiða myndina. „Ég var hrifinn af bókinni en ekki handritinu og sagði það,” sagði Baltasar í viðtali við Fréttablaðið. Í kjölfarið var handritshöfundinum Malcom MacRury flogið til Íslands þar sem þeir Balti skrifuðu handritið upp á nytt. Áður en Baltasar kom til sögunnar höfðu leikkonurnar Annette Bening og Meryl Streep verið að falast eftir kvikmyndarétti bókarinnar.

4. sæti – Sjálfstætt fólk
Baltasar greindi frá því í Kastljósi að hann hefði tryggt sér kvikmyndaréttinn á Sjálfstæðu fólki, einni þekktustu skáldsögu Halldórs Laxness, og að hann ætli að skrifa handritið sjálfur. Lítið hefur spurst til verkefnisins síðan en það er ekki annað hægt að vona að þetta tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu rati á hvíta tjaldið.

3. sæti – Larry Bird on Broadway
Fyrsta leikstjóraverkefni Baltasars, tragíkómedían 101 Reykjavík, vakti víða lukku í hinum stóra heimi. Myndin byggði á samnefndri bók Hallgríms Helgasonar og ætluðu þeir að leiða hesta sína saman á ný í Larry Bird on Broadway. Handritið, sem Hallgrímur skrifaði, sagði frá uppistandara sem átti við það vandamál að stríða að allir hans brandarar snerust um fjölskyldu hans. Fjölskyldunni líkar það illa og ákveður að útskúfa honum. Á síðasta ári tryggðu danskir kvikmyndaframleiðendur sér handrit myndarinnar og stóðu tökur yfir á þessu ári. Anders W. Berthelsen fer með aðalhlutverkið í myndinni og ber hún nafnið Comeback.

2. sæti – Vikingr
Fyrr í vikunni var greint frá því að handritið Vikingr væri loksins búið að finna heimili eftir tíu ára leit. Universal Pictures og Working Title koma til með að framleiða myndina í sameiningu en Baltasar og leikarinn Ólafur Egill Egilsson skrifuðu handritið. Working Title tryggði sér réttinn á handritinu árið 2011. Baltasar hefur margoft talað um víkingamyndina og var útlit fyrir að myndin færi í framleiðslu árið 2009 þegar víkingaþorp var reist á Horni í Hornafirði. Leikmyndin hefur veðrast talsvert síðan þá en óvíst er hvort hún verði notuð úr því sem komið er. Handritið segir frá landnemum og lífi þeirra en handritið sækir innblástur í gömlu víkingasögurnar.

1. sæti – Grafarþögn
Þegar Mýrin var frumsýnd árið 2006 sló hún umsvifalaust í gegn og hefur fólk síðan þá beðið óþreyjufullt eftir fleiri kvikmyndum um lögreglumanninn Erlend, sem Ingvar E. Sigurðsson lék með glæsibrag. Grafarþögn var fjórða bók Arnalds Indriðasonar og segir frá þegar mannabein finnast í grunni nýbyggingar í útjaðri Reykjavíkur og eru Erlendur og teymi hans kölluð á svæðið. Grafarþögn var næst í röðinni og hefur Baltasar margoft rætt um hana eins og það væri korter í tökur en útlit fyrir að fólk þurfi áfram að bíða í voninni.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *