Leikarinn Bill Murray settist niður með útvarpsmanninum Howard Stern í síðustu viku þarsem þeir ræddu um feril leikarans góða, hvernig hann tæklar frægðina og hvaða hlutverk honum hafa boðist en hann hafnað.
Leikarar velja og hafna verkefnum og eftir á getur verið skrýtið að horfa til baka reyna sjá annan leikara fyrir sér í hlutverki en þann sem að lokum skilaði því af sér. Í spjallþættinum ákvað Stern að spyrja Murray út í kvikmyndirnar Rain Man, Philadelphia og Forrest Gump en þær eiga það sameiginlegt að Murray sagði pass við þeim.
Það væri erfitt að ímynda sér Murray holdgerast í einfeldningnum Forrest Gump enda sýndi Tom Hanks snilldartakta í hlutverkinu og uppskar tugi verðlauna, þar á meðal Óskarinn fyrir túlkun sína. Í Rain Man var Murray boðið hlutverk Toms Cruise og í Philadelphia var það rulla Denzels Washington.
Murray sagði Stern frá því að honum hefði aldrei verið formlega boðið hlutverk Forrests því verkefnið var ennþá í þróun. Hann fékk þá bókina, sem myndin er byggð á, því ekkert handrit var til staðar en hún heillaði hann einfaldlega ekki.
Forrest Gump sló umsvifalaust í gegn árið 1994 og hlaut sex óskarsverðlaun árið 1995. Myndin halaði inn alls 667 milljónum dollara á heimsvísu. Aðspurður um hvort Murray sæi ekki eftir hlutverkinu sagði hann svo ekki vera því hann hafi aldrei séð myndina.
Fólk fær stundum galnar hugmyndir í Hollywood. Sumar verða að veruleika en aðrar rætast sem betur fer aldrei. Í „Hvað ef…?“ rifjar Svarthöfði upp ýmsar gamlar delluhugmyndir og veltir fyrir sér hvernig hefði farið ef þær hefðu komist alla leið í bíó.