Óháð öllum vangaveltum um nördisma og hversu merkilegar Stjörnustríðsmyndir George Lucas eru yfirleitt þá þarf ekkert að þrasa neitt um það að fyrstu myndirnar þrjár hafa haft gríðarleg áhrif á ótal einstaklinga út um allan heim. Þær drógu ungt fólk í bíó og sumir urðu aldrei samir á eftir.
Þegar Stjörnustríð var frumsýnd í Nýja bíói á Íslandi var heimurinn allt öðruvísi en hann er í dag, einfaldari og krúttlegri. Laus við Internet og farsíma og ævintýrið sem blasti við á tjaldinu var eitthvað það stórkostlegasta sem sést hafði í bíó. Og í þá daga var allt þýtt og þess vegna hét Darth Vader Svarthöfði. Luke Skywalker var Logi Geimgengill og honum til halds og trausts voru Hans Óli, Lilja prinsessa og Loðinn (Chewbacca). Þau tókust á við Svarthöfða, Tjörva stórmoffa (Moff Tarkin) og stormsveitarmenn þeirra í Helstirninu í fyrstu myndinni sem markaði upphaf á einhverju mögnuðu sem ekki sér enn fyrir endann á.
Svarthöfði er stórt nafn og þar sem Star Wars er sterkasti tengiliður okkar bíónördanna tveggja sem stöndum að þessum vef, þrátt fyrir fimmtán ára aldursmun, fannst ekkert annað koma til greina en nefna hann eftir aðalgæjanum og einum flottasta skúrki kvikmyndasögunnar. Við hvetjum lesendur eindregið til þess að skrá sig á Svarthöfða þannig að þeir geti gert athugasemdir við kvikmyndarýnina á vefnum og notað spjallborðið, sem opnar á næstu vikum, til þess að ræða sín á milli um bíómyndir og allt sem þeim fylgir.
Þótt Mátturinn sé vissulega með Svarthöfða og verði það alltaf þá er ekki útilokað að einhverjir byrjunarörðugleikar komi upp og þeir sem verða varir við slíkt eru beðnir um að láta okkur vita með tölvupósti.
Vignir Jón Vignisson
Þórarinn Þórarinsson