Víkingapönkari bíður eftir stóra tækifærinu

Fáir karlmenn íslenskir eru betur til þess fallnir að láta til sín taka í Game of Thrones en altmúlígtmaðurinn Ingólfur Júlíusson sem hefur allt til að bera sem alvöru karlmenni í þessum kaldhömruðu þáttum þurfa að hafa til að bera. Og vonandi er stóra tækifærið loksins að koma.

Ingólfur skartar miklu skeggi og vígalegu hári sem hann lét sér vaxa eftir pöntun þegar Friðrik Þór Friðriksson viðraði fyrst hugmynd sína um að kvikmynda Óvinafagnað Einars Kárasonar. „Ég var beðinn um það fyrir nokkrum árum að vera tilbúinn fyrir víkingamynd sem Friðrik Þór ætlar að gera eftir Óvinafagnaði Einars Kárasonar. En það er eitthvað verið að slípa handritið þannig að þetta hefur dregist“ segir Ingólfur við Svarthöfða og hlær djúpum hlátri sem gæti hæglega komið úr barka dvergs í Lord of the Rings.

Eins og þegar hefur komið fram í fjölmiðlum munu tökur fyrir aðra þáttaröð hinna frábæru Game of Thrones fara fram í ríki Vatnajökuls í byrjun september og þegar hefur verið óskað eftir „konum og körlum og þurfa karlarnir helst að vera skeggjaðir og vígalegir“ í aukahlutverk. Og Svarthöfði veit að enginn er betur til þess fallinn að láta sjá sig í Game of Thrones en einmitt Ingólfur sem hefur allt sem þarf til að bera.

„Ég veit bara ekki hvert ég á að snúa mér til þess að fá tækifæri. Ég er búinn að senda Pegasus póst en hef ekki fengið svar en það væri leitt fyrir þessa seríu að verða af starfskröftum mínum,“ segir Ingólfur sem lítur út eins og hann hafi stokkið í fullum herklæðum beint úr einmitt Game of Thrones eða mynd eftir Hrafn Gunnlaugsson.

Hann neitar því heldur ekki að hann er búinn að bíða lengi eftir álíka tækifæri og gefst núnna þegar alvöru lið mætir til landsins til þess að taka upp þætti sem falla vel að okkar fornu menningu sem Ingólfur hefur í hávegum. „Jújú. Það yrði gríðarlega gaman að fá að snúa sér í nokkra hringi í einhverri mynd eða þáttum eins og Game of Thrones.“

Ingólfur er vel búinn til bardaga og þá ekki aðeins með tillitil til skegg- og hárvaxtar. Hann á víkingahjálma og ýmis vopn þannig að hann gæti mætt á tökustað með eigin leikmuni. „Ég er samt að bíða eftir sverðinu mínu en það er verið að vinna í því.“

En er ekki erfitt að ganga um götur Reykjavíkur sem víkingur alla daga í bið eftir rétta tækifærinu? „Jú, þannig lagað. Gamlar konur greikka í það minnsta sporið og grípa um veskið þegar ég birtist sem er nú skrýtið vegna þess að ég er meinleysisgrey. En nú sit ég bara heima og stari á símann og bíð eftir að þetta verði allt þess virði,“ segir Ingólfur sem lýsir sér sem svissneskum herhníf íslenskra fjölmiðla en hann er liðtækur umbrotsmaður, kvikmyndatökumaður og ljósmyndari og tekur til dæmis myndir fyrir Reuters á Íslandi.

Og svo kann hann á gítar og hefur um árabil spilað með þeirri fornfrægu pönksveit Q 4 U þannig að Svarthöfði verður illa svikinn ef þessi magnaði víkingur verður ekki kominn með sæmilegt hlutverk í Game of Thrones áður en yfir lýkur.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *