300 Spartverjar fá nýjan leikstjóra

Noam Murro hefur verið ráðinn til þess að leikstýra 300: Battle of Artemisia eftir að Juan Carlos Fresnadillo sagði sig frá verkefninu ekki alls fyrir löngu. Murro hefur áður gert gamanmyndina Smart People og í því ljósi er valið á honum áhugavert þar sem 300 er grjóthörð testósteronveisla með karlalátum og ofbeldi.

Þar sem hinir 300 vösku stríðsmenn Spörtu féllu allir í einni frækilegustu vörn mannkynssögunnar í baráttunni við her Persakonungs í Laugaskörðum í fyrri myndinni verður 300: Battle of Artemisia forleikur að því sem þegar er komið. 
 
Zack Snyder leikstýrði 300 sem byggði á samnefndri myndasögu Franks Millers. Handrit 300: Battle of Artemisia er unnið upp úr óútgefinni myndasögu Millers en Snyder skrifar handritið ásamt Kurt Johnstad. Einn framleiðenda myndarinnar sagði í samtali við SuperHeroHype að þeir Snyder og  Johnstad hafi alveg náð að „negla“ rétta andrúmsloftið og hugmyndaheim sögusviðsins í handritinu.
 
Frumsýningardagur liggur ekki fyrir en vænta má frekari fregna úr herbúðum Warner Bros. á næstu vikum.
Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *