Toppfimm: Bestu Jesú myndirnar

Svarthöfði fékk Árna Svan Daníelsson, guðfræðing, prest og kvikmyndapælara, til þess að segja frá fimm bestu Jesú myndunum að hans mati. Niðurstaðan er vægast sagt fjölbreytt og skemmtileg og Svarthöfði gleðst í hjarta sínu yfir því að blóðgrauturinn Passion of the Christ komst ekki á blað og tekur heilshugar undir með Árna að Jesus de Montreal sé ein besta Jesú myndin.

Gleðilega páska!


5. Jesus Christ Vampire Hunter
Fyndnasta Jesúmyndin. Kvikmyndin um vampírubanann Jesús er kanadísk b-mynd sem vakti litla athygli þegar hún kom út á sínum tíma. Henni var eitt sinn lýst sem blöndu af Buffy vampírubana og Jesús frá Montreal. Hún segir frá endurkomu Jesú til að slást við vampírurnar sem hafa haslað sér völl. Hún er meinfyndinn og skemmtileg tilraun til að segja Jesúsöguna á nýstárlegan hátt.
 


4. Jesus de Montreal
Besta Jesúmyndin. Í henni er sögð saga leikhóps sem fær það verkefni að setja upp píslarsöguna í borgarkirkju. Þau fá nokkuð frjálsar hendur og reyna að fara nýjar leiðir. Eftir því sem líður á ferlið fara leikararnir smátt og smátt að samsama sig persónunum sem þau leika og þannig verður úr Jesúleikaranum Kristsgervingur. Þegar yfirvöld reyna að stöðva sýninguna hefur það ófyrirséðar afleiðingar.3. Jesus Christ Superstar
Skemmtilegasta Jesúmyndin er söngleikurinn um súperstjörnuna Jesús. Söngvarnir eru magnaðir og samspilið milli Jesú, Júdasar og Maríu Magdalenu ógleymanlegt. Myndin minnir okkur líka á að alltaf þegar er unnið með Jesúsöguna erum við að túlka hana. Helst hefur verið deilt um það varðandi þessa mynd hvort í henni sé upprisa eða ekki, í öllu falli er enginn á krossinum í lok myndar.


2. In America
Fallegasta Jesúmyndin fjallar aðeins óbeint um Jesú. Það er Kristsgervingamyndin In America sem Jim Sheridan gerði hér um árið. Í myndinni er sögð saga írskrar fjölskyldu sem bregst við áfalli og sorg með því að flytja til New York. Nágranni þeirra í óhrjálegri blokk reynist þeim lífgjafi í fleiri en einni merkingu. Hann reynist þeim Kristur í sögu sem minnir á Mörtu og Maríu.1. Il vangelo secondo Matteo / The Gospel According to St. Matthew
Ágengasta Jesúmyndin er sú sem ítalski leikstjórinn Pier Paolo Pasolini gerði 1964. Hann fylgir Matteusarguðspjalli nákvæmlega og segir söguna frá upphafi til enda. Margir leikararnir eru ómenntaðir íbúar í þorpinu þar sem myndin er tekin. Jesús Matteusarguðspjalls Pasolinis er ungur og fallegur. Hann er að flýta sér – er eiginlega á hlaupum gegnum alla myndina – því það er verk að vinna. Hann er málsvari þeirra sem minna mega sín. Að horfa á þessa mynd í bíóhúsi nálgast upplifun af góðri guðsþjónustu.

Árni Svanur Daníelsson, guðfræðingur og prestur
árni + kristín

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *