Fjórða sería Game of Thrones verður tekin á Íslandi

Svarthöfði hefur öruggar heimilidir fyrir því að fjórða sería sjónvarpsþáttanna vinsælu Game of Thrones verði tekin að hluta á Íslandi. Þetta yrði þá í þriðja skiptið sem fantasíuþættirnir gera íslenskt landslag að ævintýraheimi sínum.

Að þessu sinni verða þættirnir meðal annars teknir á Þingvöllum, Hengli og í Þórsádal samkvæmt heimildum Svarthöfða. Áður voru þættirnir teknir á Svínafellsjökli, Mývatni og Vatnajökli. Tökur á þáttunum byrja seinnihluta júlí og standa fram í ágúst. Síðast unnu 270 manns að tökunum hérlendis og má búast við samskonar fjölda að þessu sinni.

Náttúra Íslands hefur sett svip á síðustu tvær seríur af þáttunum og sneri einn leikstjóra Game of Thrones, Alan Taylor, aftur til landsins með Thor: The Dark World. „Okkur finnst magnað að ferðast til heims sem líkist þeim sem við erum að reyna skapa. Það veitir okkur öllum innblástur,“ sagði Taylor um landið á síðasta ári.

Stöð 2 sýnir þættina á Íslandi og lýkur göngu þriðju seríu núna í sumar.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *