Kristinn Hrafnsson dissar The Fifth Estate í drasl

Okkar maður í WikiLeaks-ævintýrinu, Kristinn Hrafnsson blaðamaður og talsmaður WikiLeaks, skaut nokkrum vel völdum þrumufleygum á „WikiLeaks-myndina“ The Fifth Estate á Facebook-vegg sínum á föstudaginn en þá hófust sýningar á myndinni á Íslandi.

Julian Assagne, aðal WikiLeaks-gæinn, hefur þegar fordæmt myndina og reyndi meira að segja að fá leikarann Benedict Cumberbatch ofan af því að leika sig í þessari mynd sem hann vissi fyrirfram að myndi ekki segja sanna sögu uppljóstranasíðunnar sem hefur haft gríðarleg áhrif á heimsmyndina undanfarin misseri. Kristinn hefur einnig áður varað við myndinni en á föstudaginn dró hann fram stóru byssuna og skrifar á Facebook:

„Kvikmyndin, sem auglýst er ranglega sem einhvers konar raunsaga WikiLeaks, fer sneypuför um heiminn og er að verða eitt mesta flopp Hollywood í talsverðan tíma. Aðeins 3000 ástralir nenntu á myndina í bíó, við opnun, þrátt fyrir augljósa tengingu við landið. Nú skilst mér að sýningar hefjist hér á landi um helgina og miðað við auglýsingar er gefið í skyn að þarna sé raunveruleikinn endurspeglaður. Svo er ekki og raunar langt í frá, miðað við handritið sem ég hef lesið. Fyrir nú utan að atriði í myndinni (sem byggð er á bókum manna í hefndarhug) eru skaðleg fyrir samtökin. Fólk hefur áttað sig á þessu og sleppir því að ómaka sig við að sjá hana. Gagnrýnendur er líka flestir á því að myndin sé léleg. Eiginlega veit ég ekki hvor skandallinn er stærri; að falsa söguna í mynd sem gerir sig út fyrir að vera trúverðug endurspeglun veruleikans, eða ná að gera leiðinlega mynd úr einstaklega spennandi kafla samtímasögunnar.“

Ætla má að áhuginn á The Fifth Esatate sé þó nokkur á Íslandi þótt ekki væri fyrir annað en að hún var að hluta tekinn upp hér á landi og að Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, er áberandi persóna í myndinni. En það getur varla talist gott veganesti í bíó á Íslandi að þekktur og virtur rannsóknarblaðamður eins og Kristinn stúti myndinni jafn harkalega og raun ber vitni. Og vissulega hefur hann mikið til síns máls. Myndin er flopp á alþjóðavísu og gagnrýnendur hafa farið um hana hörðum höndum. Cumberbatch hefði ef til vill átt að hlusta á Assagne á sínum tíma? Og kannski getur hakkarinn goðsagnakenndi fundið sér nýjan feril sem „casting director“ í Hollywood í ljósi þessa.

Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og þannig bendir Kristjón Kormákur Guðjónsson, fréttastjóri Pressan.is, á það í athugasemd hjá Kristni að Birgitta sé ánægð „með útkomuna, samkvæmt frétt RÚV og sagði söguþráð vera býsna nærri sannleikanum.“

Hann hefur síðan eftir þingkonunni að engin sena sé „100 prósent rétt enda er verið að þjappa saman atburðum sem gerðust á nokkrum árum niður í tvær klukkustundir. En mér fannst þeir ná andanum og stemningunni sem var í gangi þegar við vorum að fá í hendurnar stærsta leka heimsögunnar.“ Kristjón spyr síðan hvort Birgitta ætti ekki að „vera í ágætis stöðu til að dæma um gildi myndarinnar eða hvað?“

Mikið til í því en svo má aftur spyrja á móti hvort nokkur manneskja þurfi að kvarta þegar hollenska leikkonan Carice van Houten er fengin til þess að leika hana?

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *