Ben Affleck og Matt Damon blása lífi í Sleeper

Sleeper er fjandi góð myndasaga, eftir Sean Phillips og Ed Brubaker sem kom út á árabilinu 2003 og 2005. Sagan gerðist í Wildstorm-heiminum og fjallaði um hremmingar leynilega útsendarans Holden Carver sem sigldi undir fölsku flaggi hjá skuggalegum skúrkasamtökum sem TAO stýrði. Carver snýr síðan blaðinu við og gerist alvöru skúrkur og í anda Yojimbo og Red Harvest leikur hann tveimur skjöldum og spilar með alla í kringum sig.

Árið 2008 hafði Sam Raimi augastað á sögunni en síðan hefur ekkert til Sleeper spurst fyrr en nú þegar fréttist að Matt Damon og Ben Affleck hafi tekið söguna upp á sína arma og hyggist framleiða bíómynd eftir henni í samstarfi við Warner Bros.

Shawn Ryan, höfundur The Shield, og David Wiener, höfundur The Killing og Flesh and Bone, hafa verið fengnir til þess að skrifa fyrstu handritsdrög. Enginn leikstjóri hefur verið nefndur til sögunnar, ekkert frekar en leikarar þannig að enn liggur ekkert fyrir um hvort þeir félagar Affleck og Damon ætli að leika saman á ný, í fyrsta skipti síðan í Jay & Silent Bob Strike Back.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *