Denzel Washington er banvænn í The Equalizer

Óskarsverðlaunahafinn Denzel Washington fer með aðalhlutverkið í spennumyndinni The Equalizer sem verður frumsýnd í mánuðinum en hún byggir á samnefndri sjónvarpsseríu frá níunda áratugnum. Hér fyrir neðan má sjá splúnkunýja klippu úr myndinni þar sem Denzel sýnir ótíndum glæpamönnum í tvo heimana.

Í The Equalizer leikur Washington fyrrum sérsveitarmanninn Robert McCall sem gengur undir nafninu Bjargvætturinn eða The Equalizer. McCall notar notar kunnáttu sína og hæfileika til þess að hjálpa þeim sem minna mega sín í New York. Auk Washington fara Chloë Grace Moretz, úr Kick-Ass myndunum, Marton Csokas og Melissa Leo með hlutverk í myndinni.

Antoine Fuqua leikstýrir myndinni en hann og Washington unnu síðast saman að Training Day þar sem leikarinn fór með hlutverk gerspilltrar löggu, sem gerði nýliða, sem Ethan Hawke lék, lífið vægast sagt leitt. Frammistaða Washingtons skilaði honum óskarsverðlaunum og allar götur síðan þeir Fuqua gerðu Training Day saman fyrir tólf árum hafa þeir haft áhuga á því að vinna saman aftur.

Í sjónvarpsþáttunum brunaði McCall um á forláta Jagúar og tók harkalega á illmennum sem níðast á varnarlausu fólki en hann auglýsir þjónustu sína í smáauglýsingum undir þessum orðum: ODDS AGAINST YOU-CALL THE EQUALIZER. Óvíst er hvort Denzel fari sömu leið í myndinni.

Það hefur gengið brösulega að koma myndinni í framleiðslu en upphaflega ætlaði Russell Crowe að leika í myndinni þegar Paul Haggis ætlaði sér að leikstýra henni. Í kjölfarið tók Nicolas Winding Refn við myndinni en hann og Washington náðu ekki saman.

The Equalizer verður frumsýnd hérlendis 26. september.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *