Interstellar er lengsta kvikmynd Christophers Nolan

Vísindaskáldskapurinn Interstellar verður frumsýnd 7. nóvember og er Svarthöfði bókstaflega að fara á límingunum af eftirvæntingu. Eðlilega.

Nú liggur fyrir að kvikmyndin er sú lengsta sem hefur komið úr smiðju leikstjórans Christophers Nolan. Interstellar verður, samkvæmt kvikmyndavefnum The Film Stage, 169 mínútur að lengd með kreditlista.

Matthew McConaughey, Anne Hathaway, Jessica Chastain og Michael Caine fara með aðalhlutverk myndarinnar en handritið skrifaði Nolan ásamt bróður sínum, Jonathan Nolan. Myndin var að hluta til tekin upp á Íslandi en Nolan vann áður hérlendis að Batman Begins árið 2004 og landið hefur verið einkum áberandi í kynningarefni myndarinnar.

Interstellar fjallar um hóp könnuða sem rannsaka nýfundin ormagöng og ferðast með henni í tíma og rúmi. Myndin er að hluta til byggð á kenningum eðlisfræðingsins Kip Throne um ormagöng eða Einstein-Rosen brú.

„Ég get sagt þér að þetta er það metnaðarfyllsta sem hann hefur nokkru sinni gert,“ sagði McConaughey í viðtali við Variety um Nolan og myndina. Á Comic Con-ráðstefnunni fyrr á árinu sagði Nolan að 2001, kvikmynd Stanleys Kubrick, væri meðal þeirra kvikmynda sem hefðu veitt honum innblástur við gerð Interstellar.

Lengd kvikmynda Nolans til þessa:

Following – 70 mínútur
Memento – 113 mínútur
Insomnia – 118 mínútur
Batman Begins – 140 mínútur
The Prestige – 130 mínútur
The Dark Knight – 152 mínútur
Inception – 148 mínútur
The Dark Knight Rises – 165 mínútur
Interstellar – 169 mínútur

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *