Eftir margra vikna viðræður milli leikarans Joaquin Pheonix og myndasögurisans Marvel um titilhlutverk ofurhetjumyndarinnar Doctor Strange hefur óskarsverðlaunahafinn gengið frá samningaborðinu.
Undirbúningsvinna fyrir ofurhetjumyndina er langt á leið komin hjá Marvel þar sem Scott Derrickson mun leikstýra handriti Jons Spaihts. Nú er óvíst til hvaða leikara Marvel leitar en Jared Leto, Tom Hardy og Benedict Cumberbatch voru ofarlega á óskalistanum ásamt Pheonix.
Doctor Strange kemur úr smiðju Stan Lee og Steve Ditko og hann birtist fyrst í sögum Marvel árið 1963. Hann tilheyrir svokallaðri silfuröld teiknimyndablaðanna. Kraftar hans felast í göldrum og er hann sagður kröftugasti galdramaðurinn í vetrarbrautinni.
Kevin Feige, forstjóri Marvel, hefur í viðtölum áður látið að því liggja að Doctor Strange verði ein þeirra Marvel-persóna sem muni láta til sín taka í þriðju lotu kvikmyndaherferðar fyrirtækisins. „Hann er frábær og frumleg persóna og hann uppfyllir okkar skilyrði. Hann er frábrugðin öllu því sem við höfum áður séð, rétt eins og með Guardians of the Galaxy. Hann er öðruvísi en það sem við höfum gert áður, rétt eins og Ant-Man, sem gerir okkur spennt,“ sagði Feige í viðtali árið 2013.
Doctor Strange mætir í kvikmyndahús 8. júlí 2016.