Léa Seydoux verður Bond-stúlkan í Bond 24

Franska leikkonan Léa Seydoux hefur verið ráðin í hlutverk Bond-stúlkunnar í tuttugustu og fjórðu myndinni um njósnara hennar hátignar, James Bond. Framleiðslan á myndinni hefst 6. desember.

Seydoux er þekktust fyrir hlutverk sitt í myndinni Blue is the Warmest Color þar sem hún hlaut Gullpálmann fyrir leik sinn í myndinni á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Þetta var fyrsta skiptið í sögu hátíðarinnar þar sem leikstjóri og leikari deilir verðlaununum eftirsóttu.

Daniel Craig snýr aftur sem Bond, ásamt Ralph Fiennes, Naomie Harris og Ben Whishaw í hlutverkum þeirra M, ritarans Moneypenny og græjumeistarans Q. Óskarsverðlaunahafinn Sam Mendes, leikstjóri Skyfall, American Beauty og The Road to Perdition, mun einnig leikstýra þessari. John Logan ásamt Neal Purvis og Robert Wade skrifa handrit myndarinnar.

Ekki liggur fyrir söguþráður myndarinnar en talið er að skúrkar úr eldri Bond-myndum líti við og jafnvel að hin illu samtök S.P.E.C.T.R.E. komi við sögu. Róm, Austurríki og Frakkland eru meðal tökustaða Bond 24 og verður myndin frumsýnd 23. október á næsta ári í Bretlandi.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *