Kvikmyndin Cloudy with a Chance of Meatballs, eða Skýjað með kjötbollum á köflum, hitti Svarthöfða beint í hjartastað árið 2009. Nú einni framhaldsmynd síðar er tölvuteiknuð sjónvarpssería komin á teikniborðið hjá sjónvarpsdeild Sony Pictures.
Cloudy with a Chance of Meatballs: The Series kemur til með að gerast á unglingsárum vísindamannsins ákáfa Flint Lockwood, eða áður en hann finnur upp græjuna FLDSMDFR. Flint er staddur í unglingastigi í grunnskóla þar sem hann dreymir um að verða frægur vísindamaður. Þættirnir verða alls 26 talsins og verða 22 mínútur að lengd.
Óvíst er hvort Phil Lord og Chris Miller, leikstjórar fyrstu myndarinnar og framleiðendur þeirrar seinni, komi nálægt hinum væntanlegu þáttum en það er ekkert annað í stöðunni en að vona. Lord og Miller sendu frá sér á þessu ári gamanmyndirnar The LEGO Movie og 22 Jump Street.
Cloudy with a Chance of Meatballs: The Series er væntanleg á næsta ári.