Charlie Cox stígur fram sem Daredevil

Marvel-ofurhetjan Daredevil snýr aftur á næsta ári í boði Netflix. Breski leikarinn Charlie Cox leikur blinda lögmanninn Matt Murdock sem lemjur á glæpahysi í frístundum sínum. Fyrstu myndirnar úr þrettán þátta sjónvarpsseríunni má sjá hér að ofan, og fyrir neðan.

Marvel Studios framleiðir þættina og þeir eru því hluti af stórum heimi ofurhetja og Daredevil er aðeins fyrsta Marvel-hetjan sem fær að njóta sín á skjánum hjá Netflix. Í kjölfarið koma þættir um Jessica Jones, Iron Fist og Luke Cage en hetjurnar munu síðan koma saman í míní-seríunni The Defenders.

Óskarsverðlaunahafinn Ben Affleck lék Daredevil í samnefndri kvikmynd með dapri útkomu árið 2003 en nú er útlit fyrir að rauða spandex-hetjan fái uppreisn æru. Auk Cox leika Vicent D'Onofrio, Elden Henson, Scott Glenn og Deborah Ann Woll einnig í þáttunum. Glenn mun leika bardagalistamanninn Stick sem þjálfaði Elektru og tekur að sér að hjálpa Daredevil að ná tökum á hæfileikum sínum og þróa bardagatæknina.

D'Onofrio fer með hlutverk skúrksins Wilson Fisk eða Kingpin, sem er einn af erkifjendum Daredevil og Spider-Man. Risinn Michael Clarke Duncan heitinn fór áður með hlutverk Kingpins í Daredevil-kvikmyndinni.

Upphaflega var Drew Goddard þáttastjórnandi en hann sagði starfinu lausu fyrr á árinu og tók Steven S. DeKnight við taumunum. Stefnt er að frumsýningu seríunnar í maí 2015.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *