Tökur á ofurhetjuveislunni Batman vs. Superman: Dawn of Justice hafa staðið yfir síðan í maí og lýkur í desember en myndin verður frumsýnd árið 2016.
Aðdáendur Batmans voru ekki par ánægðir með ráðningu óskarsverðlaunahafans Bens Affleck í hlutverkið en hann hafði áður spókað sig um í rauðu spandexi Daredevils. Framleiðandinn Charles Roven ræddi um ráðningu leikarans umdeila í hlutverkið í viðtali við The Hollywood Reporter á dögunum.
„Hann er sá fyrsti sem við leituðum til. Hann er sá sem við vildum,“ sagði Roven. „Við vissum að við vildum þroskaðan Batman, vegna þess að við vildum stilla honum upp við hlið ungs Supermans.“
Batman vs. Superman: Dawn of Justice er framhald Superman-myndarinnar Man of Steel frá árinu 2013 en Zack Snyder leikstýrir framhaldsmyndinni. Christopher Nolan, sem stýrði The Dark Knight-þríleiknum er einn framleiðenda myndarinnar. Roven segir Nolan einnig hafa verið ráðgjafa þegar kom að ráðningum leikara og hann tók þátt í valinu á Affleck.
Auk Afflecks leika Henry Cavill, Jesse Eisenberg, Scoot McNairy, Amy Adams, Laurence Fishburne, Jeremy Irons, Gal Gadot, Holly Hunter, Jason Momoa og Diane Lane í myndinni.
Batman vs. Superman: Dawn of Justice verður frumsýnd 25. mars 2016.