Sýnishorn: Gjöreyðing yfirvofandi í The Avengers: Age of Ultron

Fyrsta sýnishornið úr ofurofur-ofurhetjumyndinni The Avengers: Age of Ultron var frumsýnt á verldarvefnum í nótt og má sjá það hér fyrir neðan.

Í The Avengers: Age of Ultron þarf Avengers-teymið, þau Iron Man, Captain America, Black Widow, Hulk, Thor og Hawkeye, að taka á honum stóra sínum í baráttunni við erkiskúrkinn Ultron. Að hætti ofurskúrka hefur Ultron að sjálfsögðu það markmið að leggja heiminn að fótum sér og endurmóta hann eftir eigin höfði.

Ofurnördið og Marvel-gulldrengurinn Joss Whedon leikstýrir framhaldsmyndinni. Hann hefur látið það flakka að þungamiðja næstu myndar verði sársauki og sorg. „Allir þessir einstaklingar eru nú búnir að hittast svo maður er laus við það. Nú hefurðu tök á því að grafa þig dýpra, og þá meina ég með skurðarhníf, til þess að valda sársauka,“ sagði Whedon á síðasta ári.

Leikstjórinn hikar ekki við að drepa persónur í þeim verkefnum sem hann kemur nálægt og verður spennandi að sjá hvaða ofurhetja fellur í valinn eftir baráttuna við Ultron í framhaldsmyndinni.
„Hann er vélmenni og algerlega bilaður. Við erum að skoða hvað gerir hann svona ógnvekjandi en um leið aðlaðandi, fyndinn, sérkennilegan og óútreiknanlegan og bara allt sem vélmenni eru aldrei,“ sagði Whedon um Ultron.

Robert Downey Jr., Chris Evans, Scarlett Johansson, Mark Ruffalo, Mark Hemsworth, Jeremy Renner endurtaka hlutverk sín sem Avengers-teymið ásamt Samuel L. Jackson í hlutverki Nick Fury. Auk þeirra fara Elizabeth Olsen, Aaron Taylor-Johnson, Paul Bettany, Don Cheadle og Andy Serkis einnig með hlutverk í myndinni. Að lokum ljáir James Spader ofurskúrknum Ultron rödd sína.

The Avengers: Age of Ultron kemur í kvikmyndahús 1. maí vestanhafs og má búast við henni um sama leyti hérlendis.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *