Barnaleg en góðhjörtuð suðurríkjastelpa leitar húsaskjóls hjá sérvitrum New York-búa sem hefur allt á hornum sér og veit allt betur en allir aðrir. Henni líkar strax við hann, og hægt og bítandi, fer honum að líka vel við hana.
Það einfaldlega hlaut að koma að því að Larry David tæki að sér aðalhlutverk í kvikmynd og varla er hægt að finna betri rullu fyrir hann en í Woody Allen-mynd. David er þekktastur fyrir að vera annar skapari Seinfeld-þáttanna og fyrir að leika sjálfan sig í þáttunum Curb Your Enthusiasm. Húmor þeirra félaga, David og Allen er mjög áþekktur; þurr, svartur húmor sem lifnar við í orðaleikjum og athyglisverðum athugasemdum sem eiga oftar en ekki fullkomlega rétt á sér.
Uppsetning myndarinnar er stórgóð með skrautlegum og skemmtilegum persónum. David er fullkominn í hlutverki Boris Yellnikoff, sérlynds furðufugls sem glímir við miðaldrakreppu. Líkt og í fyrri myndum Allens er fjórði veggurinn reglalega brotinn þar sem Boris ávarpar áhorfendur með hugmyndum sínum um lífið og tilveruna.
Whatever Works sver sig í ætt við eldri verk Allens þar sem hann fjallar um lífið, dauðann, ástina og alla aðra hluti sem virðast fara í taugarnar á honum, á skemmtilegan og áhugaverðan máta.