Killer Elite

Nokkuð almenn sátt ríkir um að í heimi stríða og manndrápa á vegum þjóðríkja sé Sérsveit breska flughersins (SAS) öðrum fremri enda meðlimir sveitarinnar hertir með brjálæðislega erfiðum æfingum sem geta gert vaska menn klepptæka áður en yfir lýkur.

Í Killer Elite leikur Jason Statham grjótharðan málaliða og leigumorðingja, þann besta í bransanum, sem neyðist til að yrkja vini sínum og læriföður (Robert De Niro) höfuðlausn með því að drepa þrjá fyrrverandi SAS-menn. Klári hann ekki verkið verður De Niro drepinn. 

Þetta er vitaskuld ekkert áhlaupaverk þar sem SAS-menn eru lítið fyrir að láta kála sér og til þess að bæta gráu ofan á svart blandar Clive Owen sér í leikinn. Hann er fyrrverandi SAS-maður sem gætir öryggis félaga sinna af einurð og festu. Þegar þessum tveimur mönnum og skjaldsveinum þeirra lýstur saman verður því fjandinn laus.

Killer Elite er kokkteill spennu og hasars í 60/40 hlutföllum og virkar vel sem slík. Hún heldur spennu og hasaratriðin eru hröð og öflug og þar er Statham femstur meðal jafningja. Öruggur á heimavelli.

Hann er einfaldlega harðasti jaxlinn í þessari deild í dag. Kannski ekki blæbrigðaríkur leikari en magnaður í öllu sem við kemur hasar, auk þess sem hann er andskotanum svalari. Clive Owen skilar sínu einnig með sóma fyrir allan peninginn hans Sigurjóns Sighvatssonar framleiðanda og Robert De Niro er bara De Niro. Allir þurfa þessir menn að fá að njóta sín og sýna hvað í þeim býr og maður fær á tilfinninguna að einhver hafi metingurinn nú verið á tökustað. Þetta hefur þau áhrif að myndin virkar aðeins of löng en heildarpakkinn heldur.

Myndin gerist árið 1980 og er fín „períóda“ og ferlega smart á að horfa. Líka eitthvað ómótstæðilegt við að sjá gamla Ford Cortinu í eltingarleik við klassískan Jagúar. Framleiðslan er öll til fyrirmyndar og aukaleikararnir Aden Young og sérstaklega Dominic Purcell eru dásamlegir í hlutverkum hjálparkokka Stathams. 

Yfir þessu öllu svífur notalega „breskur“ andi sem gerir Killer Elite dálítið „fullorðins“. Þetta er því ekki dæmigerð Statham-mynd og ristir töluvert dýpra en vinsælustu myndir hans til þessa. En kappinn klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Hann kann það ekki vegna þess að hann er bara of töff.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *