Drive

Ryan Gosling sýnir ótrúlegan leik í hlutverki dularfulls manns sem er undrabarn undir stýri bifreiða og lifir á því að keyra í áhættuatriðum í bíómyndum í Los Angeles. Þar fyrir utan tekur hann að sér að aka flóttabifreiðum fyrir ræningja sem þurfa að komast undan lögreglunni hratt og örugglega. Ökuþórinn segir fátt og þegar hann er ekki að keyra hengslast hann í gegnum grámyglulega tilveruna og virðist einna helst vera greindarskertur. 

Þrátt fyrir langar þagnir og fá orð þess á milli tekst Gosling að tjá einhvern óræðan harm og tómleika í þessum manni sem enginn veit nákvæmlega hver er eða hvaðan hann kemur. Og þegar á reynir kemur á daginn að þessi sveimhugi, sem virkar eins og ráðvilltur íslenskur sveitamaður í Reykjavík á fyrri hluta síðustu aldar, er grjótharður gaur sem kann ýmislegt fyrir sér í viðskiptum við glæpahyski og undirheimalýð.

Markaðssetningin á Drive hér á landi hlýtur að vera eitthvað broguð þar sem margir telja að hér sé á ferðinni ægilegur bílahasar á pari við The Fast & The Furious þegar ekkert er fjær sanni. Drive á miklu meira skylt við A History of Violence en F&F. Myndin er laus við allan glamúr og tilgerð, er ofboðslega vel leikin, átakanleg og mannleg saga af fólki sem reynir að þrauka, innan um illmenni, í gráum og köldum heimi.

Ég held hreinlega að maður þurfi að leita aftur til 1992 og Reservoir Dogs til að finna jafn góða glæpamynd sem kemur jafn hressilega á óvart og Drive. Danski leikstjórinn Nicolas Winding Refn hefur fullkomin tök á efninu, akstursatriðin eru mögnuð, mannlegu samskiptin rista djúpt og ofbeldið sem blossar upp yfirgengilegt og sláandi. 

Í raun þarf ekkert að hafa mörg orð um Drive og réttast að taka sér bara aðalpersónuna til fyrirmyndar og koma sér að kjarna málsins: Drive er frábær mynd sem algert glapræði væri að láta fram hjá sér fara. Þið sjáið ekki betri glæpamynd á þessu ári og varla því næsta heldur.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *