Sleppum öllum málalengingum og komum okkur beint að kjarna málsins: Borgríki Ólafs Jóhannessonar er ferlega flott og grjóthörð glæpamynd sem hlýtur að setja ný viðmið þegar íslenskir krimmar eru annars vegar.
Hún er fantavel leikin, skemmtilega tekin og eitursvöl í útliti og áferð. Ekki spillir heldur fyrir að sagan stendur nærri raunveruleika íslenskra undirheima þótt vitaskuld sé stundum skellt aðeins á skeið í sögunni til þess að ná upp meiri krafti og spennu. Ofbeldið í myndinni er gróft en sett fram af smekkvísi þannig að fáum ætti að ofbjóða og slagsmálaatriðin eru frábærlega útfærð af Mjölnismönnum.
Ólafur er góð og ljúf sál, eins og fyrri myndir hans bera glöggt vitni, og hann býður því vitaskuld ekki upp á innantóman hasar og djöfulgang. Segja má að myndin hverfist um þrjá kjarna; Serbann Sergej, lögreglukonuna Andreu og glæpaforingjann Gunnar. Ekkert þeirra er beinlínis fyrirmyndafólk en samt er óhjákvæmilegt að finna til með þeim, sem og flestum sem í kringum þau eru.
Hópum í kringum þremenningana lýstur saman af fullri hörku þegar eiginkona Sergejs missir fóstur í árás íslenskra handrukkara á vegum Gunnars. Sergej smalar saman harðsnúnum löndum sínum og ræðst til atlögu við óvininn og Andrea og félagar hennar í lögreglunni lenda á milli steins og sleggju í glæpastríðinu.
Það er ekki heiglum hent að segja sögur af jafn mörgum persónum í bíómynd og flétta þær saman svo vel sé en Ólafi tekst þetta býsna vel. Hann er að vísu ekkert að finna upp hjólið og notar frásagnarmáta sem Tarantino beitti í Reservoir Dogs. Klárlega sniðugasta lausnin á þessu skemmtilega vandamáli.
Hér er ekki pláss til að ausa alla leikara myndarinnar lofi en hópurinn er ótrúlega góður. Ingvar E. Sigurðsson klikkar ekki frekar en fyrri daginn í hlutverki Gunnars, Ágústa Eva er dásamleg sem Andrea og sveiflast sannfærandi frá því að vera ástfangið krútt yfir í hefndaróða konu. Þáttur Sigurðar Sigurjónssonar er sérkapítuli út af fyrir sig en hann er frábær í hlutverki spillts yfirmanns fíknó.
Stjarna myndarinnar er þó að öllum ólöstuðum Zlatko Krickic sem fer hamförum í hlutverki Sergejs. Maður á vart til orð til að lýsa því snilldarjafnvægi sem hann finnur á milli mýktar og hörkunnar sex. Magnaður gaur! Og alveg hreint mögnuð mynd!