Hetjur Valhallar – Þór

Dásamlegar sögur af breyskum goðum norrænnar goðafræði eru frábær efniviður í hressilegar teiknimyndasögur og í raun er með ólíkindum að Disney, sem oft þjáist af andleysi og hugmyndafátækt, skuli ekki fyrir löngu vera búið að ramba á þessa fornu en sífersku uppsprettu. 

Góðu heilli voru það þó Íslendingar sem réðust í að gera þrívíða teiknimynd sem byggir á sögum um þrumugoðið Þór og hamarinn Mjölni. Þessi fyrsta íslenska teiknimynd í fullri lengd er ákaflega vel heppnuð, áferðarfögur, bráðskemmtileg og spennandi og öllum sem að gerð hennar komu til mikils sóma.

Handrit myndarinnar er byggt á bók Friðriks Erlingssonar um hinn unga járnsmið Þór sem lætur sér leiðast í mannheimum enda bjargfastur í þeirri trú að hann sé sonur alföðurins Óðins og ætti því frekar að berja á jötnum frekar en að hamra heitt járn. Þegar hið öfluga undravopn Mjölnir fellur óvart til jarðar og hafnar í höndum Þórs tekur líf hans algeran viðsnúning og áður en hann veit af er hann kominn á bólakaf í harða baráttu við hina valdagráðugu og bitru Hel, sem beitir jötnum fyrir sig í tilraun til þess að steypa Óðni af stóli.

Þetta tilbrigði við stef úr goðsögnum um Þór, sem þurfti nú ekki að eyða æskunni á jörðinni, er lagað að öllum helstu reglum ævintýrisins. Hér bergmála litskrúðug forn minni um leit sonar að föður og þá um leið sjálfum sér, unga manninn sem með réttri leiðsögn verður hetja og erfir í það minnst hálft konungsríkið og svo framvegis.

Allt er þetta gert með miklum ágætum og kryddað með klassískum íslenskum húmor þannig að börn jafnt sem fullorðnir eiga auðvelt með að hrífast með. Nú er bara að vona að Þór reiði sem best af jafnt heima sem erlendis þannig að áfram verði hægt að ausa af þessum mikla sagnabrunni norrænnar goðafræði ofan í íslensk börn. 

Æsir standast tímans tönn fyllilega og eru klárir í alla samkeppni að utan.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *