Steven Spielberg er alltaf bestur þegar hann fylgir barnshjarta sínu og það gerir hann svo sannarlega í þessari sprellfjörugu ævintýramynd um Tinna, Tobba og Kolbein kaftein. Með tölvutækniliði sínu og góðum leikurum tekst honum að blása ótrúlegu lífi í vel þekktar persónur Tinnabóka Hergés og með göldrum sínum fangar Spielberg anda bókanna þannig að unun er á að horfa, bæði fyrir grjótharða Tinna-aðdáendur til áratuga sem og nýja og yngri áhorfendur.
Kjarni sögunnar er sóttur í bókina um Tinna og leyndardóma Einhyrningsins þar sem Tinni reynir að leysa ráðgátuna um hvar kafteinn Kjálkabítur, forfaðir Kolbeins, faldi fjársjóð sem kenndur er við sjóræningjann Rögnvald rauða. Sagan er hins vegar þétt og gerð enn skemmtilegri með því að flétta vænan hluta úr Krabbanum með gylltu klærnar saman við hana. Ákaflega sniðugt og vel til fundið.
Maður sogast einhvern veginn strax inn í heim bókanna á fyrstu mínútunum og síðan tekur við hörkuskemmtileg rússíbanareið þar sem hvergi er slegið af og hver uppákoman rekur aðra þannig að áhorfandinn gleymir alveg stund og stað. Rétt eins og í bókunum er ógnin aldrei mjög þrúgandi en myndin er engu að síður hörkuspennandi.
Persónurnar eru sjálfum sér samkvæmar. Hundurinn Tobbi er eldklár og þrautgóður á raunastund, Skapti og Skafti skila sínu gríni og Tinni er jafn flöt persóna og venjulega þannig að hver sem er getur speglað sig í honum. Það er svo vitaskuld kjaftfori og hjartahreini alkóhólistinn Kolbeinn kafteinn sem auðgar myndina bæði með fyndnustu atriðunum og grátbroslegum mannlegum harmi sem gefur myndinni ákveðna dýpt.
Og þegar þetta smellur allt saman í höndunum á Spielberg stendur eftir frábær skemmtun og áferðarfögur lifandi myndasaga sem sýnir Tinna og skapara hans fullan sóma.