Cyrus

Einkalíf Johns hefur staðið í stað síðastliðin ár en á sama tíma og fyrrverandi eiginkona hans er að fara gifta sig á ný, kynnist John konu drauma sinna. Eina vandamálið er að það er þegar maður í lífi hennar – tvítugur sonur hennar.

Bræðurnir Jay og Mark Duplass leikstýra og skrifa þessa litlu og þægilegu mynd um hluti sem geta hent hvern sem þegar tveir einstaklingar rugla saman reitum sínum með tilheyrandi flækjum, vandamálum og áhrifum á líf fólks. Ástarsaga þeirra John og Molly er skemmtileg og fyndin og þeir bræður fara frumlega leið til að segja einfalda sögu á áhugaverðan hátt.

John C. Reilly, Marisa Tomei og Jonah Hill standa sig öll mjög vel í hlutverkum sínum og þá sérstaklega Reilly. Það verður ekki af honum tekið að hann er einhver viðkunnalegasti leikari draumasmiðjunnar og ekki skemmir fyrir hversu góður leikari hann er. Mann hryllir svo nánast við dauðu augnaráði Hill í hlutverki heimtufreka sonarins þótt hann skili sínu á fyndinn hátt.

Cyrus er hugljúf og einlæg ástarsaga með smá broddi en umfram allt er sagan trúverðug.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *