Dracula Untold

Prinsinn Vlad frá Transylvaníu skiptir við ódauðlega myrkraveru á öflugum kröftum og lífi sínu svo hann geti bjargað þegnum sínum úr klóm hins illa Ottoman-veldis.

Drakúla greifi og Sherlock Holmes deila þeim heiðri að vera þær bókmenntapersónur sem hafa oftast verið kvikmyndaðar. Goðsagnakenndar frásagnir af prinsinum Vlad veittu höfundinum Bram Stoker innblástur við skrif tímamótaverksins Dracula árið 1897 og stendur það verk fyllilega fyrir sínu enn þann dag í dag.

Hugmyndafræði Dracula Untold er sú að meira sé spunið í sögu Drakúla en kemur fram í þeirri sögu sem flestir þekkja. Án þess að orðlengja það neitt frekar þá er Drakúla í þessari mynd bara þessi fínasti gaur sem vildi láta gott af sér leiða. Drakúla er semsagt misskilinn.

Áhorfendur fylgjast með hvernig blóðþorstinn heltekur Vlad. Fólkið snýst gegn honum og að lokum tekur hann upp nafnið Drakúla. Framvindan í myndinni er kaótísk, samtöl óáhugaverð og almennt séð er myndin frekar óeftirminnileg.

Luke Evans tekur sig furðuvel út í hlutverki Vlads eða Drakúla þótt lítið sé varið í persónuna sjálfa. Evans hefur vissan sjarma sem fer hlutverkinu vel og hefði svo sannalega verið gaman að sjá hann í hlutverki Drakúla greifa í fullum skrúða, með skikkju og segja fleygar setningar eins og: „Listen to them, the children of the night. What music they make!“. Þorvaldur Davíð Kristjánsson fer með hlutverk Bright Eyes, handbendis Mehmed II sem Dominic Cooper leikur, og hefur úr litlu að moða en spjarar sig vel í hlutverki hrottans.

Það mætti setja Dracula Untold í flokk með Abraham Lincoln: Vampire Hunter sem skrautlegt hliðarskref frá hinni þekktu persónu. Dracula Untold hefur lítið fram að færa og þótt að hún sé kynnt sem krydduð forsaga þá er hún hreinlega ekkert spes.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *