Bandarísku sjónvarpsþættirnir The Equalizer hófu göngu sína 1985 og nutu töluverðra vinsælda þar til þeir hættu 1989. Stöð 2 sýndi þættina á Íslandi á fyrstu árum sínum og þeir eru enn mörgum í fersku minni, enda helvíti góðir.
Í þáttunum lék Edward Woodward breskan eldri borgara, Robert McCall, sem ók um götur New York á forláta Jagúar og sallaði niður illmenni sem níddust á minni máttar. McCall starfaði áður fyrir ótilgreinda njósnastofnun, líklega CIA, og ákvað bæta fyrir gamlar syndir sínar með því að nota hæfileika sína, sambönd og reynslu til þess að hjálpa saklausu fólki sem lendir í glæpahyski. Hann auglýsti þessa ókeypis þjónustu sína í smáauglýsingum með þessum orðum: „Odds against you? Need help? Call the Equalizer. 212 555 4200.“ Og ekki stóð á viðbrögðunum enda nóg af skítapakki í stórborginni.
Hugmyndin um að gera bíómynd sem spunnin er upp úr þáttunum var lengi í gerjun áður en Denzel Washington og leikstjórinn Antoine Fuqua létu loksins slag standa og hafa nú skilað af sér þessari líka hörkufínu spennumynd. Washington leikur McCall sem hefur snúið baki við blóðugri fortíð. Nú er hann ekki á Jagúar, heldur tekur hann lestina á hverjum morgni í Húsasmiðjuna þar sem hann vinnur á timburlagernum. Líf hans er ósköp fábrotið og tíðindalítið en í frístundum hangir hann á kaffihúsi og les sígildar skáldsögur. McCall reynir þó að láta gott af sér leiða með því að gefa samferðarfólki sínu góð ráð. Hann hjálpar feitum vinnufélaga að grenna sig og reynir að venja unga, rússneska vændiskonu af sætindum og fá hana til að breyta lífi sínu.
Þegar vondir rússneskir mansalsdólgar ganga harkalega í skrokk á hinni ungu vinkonu McCalls hrekkur hann í gamla gírinn, tekur harkalega á föntunum og er um leið komin í stríð við rússnesku mafíuna. Einn á móti öllum. Kvikmyndin er í raun forleikur að gömlu sjónvarpsþáttunum og skýrir hvernig McCall, sem hafði svarið þess dýran eið að láta af öllu ofbeldi, býr sig til bardaga á ný, gerist Bjargvætturin og ákveður að helga líf sitt framvegis vörn fyrir þá sem geta sér enga björg veitt gegn ofurefli.
Washington og Fuqua gerðu Training Day saman fyrir þrettán árum og það samstarf skilaði Denzel Óskarsverðlaunum. Þeim félögum lætur greinilega vel að vinna saman og Washington hefur aldrei verið jafn járngrimmur og svalur og í The Equalizer og myndin rígheldur spennu út í gegn. Fuqua á það til að vera svolítið stælóttur í stílnum og þeir taktar sem hann sýnir hér eru stundum á mörkum þess að vera hallærislegir en þegar hann gefur allt í botn og hækkar í harðri tónlistinni hríslast gæsahúðin um mann.
Myndin fer rólega af stað og Fuqua gefur sér góðan tíma til þess að kynna McCall til leiks, raða persónum upp í plottinu og þegar allir eru komnir á sinn stað byrjar ballið með látum, drápum, töffaraskap og hörku og hvergi slegið af fyrr en yfir lýkur. Ofbeldið í myndinni er stílfært fyrir allan peninginn og er notalega groddalegt án þess að fara yfir strikið. Það er sko enginn barnaleikur að eiga við Robert McCall og Washington er milljón sinnum harðari hér en Tom Cruise í hlutverki naglans Jack Reacher. The Equalizer er eiginlega allt það sem Jack Reacher-myndin hefði átt að vera en tókst ekki.
Myndin kallast á við First Blood á köflum og þegar McCall mætir fjendum sínum á heimavelli minna aðfarir hans skuggalega á Rambo í skóginum forðum. The Equalizer er dásamlegur ofbeldisóður til hins sterka einstaklings sem tekur málin í sínar hendur og bjargar því sem bjargað verður.
Í raun er ekkert hægt að setja út á þessa mynd annað en þann epíska feil að nota ekki gamla stefið úr sjónvarpsþáttunum. Stewart Copeland, trommari The Police, samdi það á sínum tíma og það hefði verið hægur vandi að fá hann til þess að uppfæra það fyrir nýja tíma. Bara svona til þess að gleðja okkur gömlu aðdáendur þáttanna aðeins meira. Maður fékk samt sæluhrollinn í lokinn þegar McCall sest við tölvuna og svarar pósti með yfirskriftinni: „Odds against you? Nowhere to turn?“ Vonandi hafa margir lítilmagnar samband þannig að við fáum framhaldsmynd sem fyrst. Robert McCall hlýtur að vera kominn til að vera.