Gone Girl

Kona hverfur sporlaust á degi fimmta brúðkaupsafmælis síns og fljótlega kemur í ljós að ekki er allt með felldu hvorki við hvarfið né innan veggja heimilisins.

Þegar Alfred Hitchcock frumsýndi kvikmyndina Psycho árið 1960 lagði hann mikla áherslu á að áhorfendur ljóstruðu ekki upp leyndamáli myndarinnar. Þetta gekk svo langt að kvikmyndahús sýndu klippu þar sem leikstjórinn ávarpaði áhorfendur áður en myndin hófst.

Gone Girl er gott dæmi um kvikmynd sem best er notið þegar áhorfandinn veit sem minnst um atburðarásina og þá margslugnu frásögn sem hún hverfist um. Það getur reynst erfitt í ljósi þess að Gone Girl byggir á samnefndri skáldsögu sem hefur selst í bílförmum. En það má vissulega reyna.

David Fincher hefur með kvikmyndum eins og Zodiac, Fight Club, Se7en og The Social Network sýnt og sannað að hann er meðal bestu kvikmyndaleikstjóra samtímans. Fincher fer styrkum höndum um snjallt, drungalegt, óvægið, fyndið og flókið handrit sem er hlaðið lúmskri samfélagsádeilu sem Gillian Flynn, höfundur bókarinnar, skrifar.

Ótal spurningar vakna við áhorfið og manni er ljóst að við sumum þeirra fást engin svör. Sá hugarheimur og vangaveltur sem fylgja þeim spurningum flytja mann á staði sem við fæst höfum verið á og viljum helst ekki tilheyra. Ég hef ekki enn getað hrist af mér tilfinninguna sem fylgdi mér heim að myndinni lokinni. Í fjölda atriða í myndinni var dauðaþögn og mátti heyra saumnál detta í sal troðfullum af áhorfendum. Svo spennuþrungin voru þau.

Eins og með allar myndir Finchers er valinn maður í hverju rúmi. Myndatakan, klippingin, hljóðvinnsla og tónlistin eru í einu orði sagt afburðargóð. Stíll myndarinnar er allt í senn háleitur og einfaldur, hreinn og fagur.

Leikhópurinn í heild sinni er virkilega góður og sannfærandi. Ben Affleck og Rosamund Pike passa fullkomlega í hlutverk hjónanna, Nick og Amy Dunne. Pike er óaðfinnanleg sem hin týnda Amy og verður bókað tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir margbrotna frammistöðu sína, án þess að það sé nánar út í það farið.

Kim Dickens og Carrie Coon eru einnig frábær ásamt Tyler Perry sem lögmaðurinn Tanner Bolt, sem er hálfgerð Johnnie Cochran-týpa. Í fljótu bragði má halda að Neil Patrick Harris, sem er þekktastur fyrir hlutverk Barney í gamanþáttunum How I Met Your Mother, fitti ekki inn í myndina og viti menn, hann neglir hlutverkið.

Gone Girl er eins og þær gerast bestar þegar áhorfandinn er gerður virkur þátttakandi, flæktur í fléttuna, látin horfast í augu við atburði og vinna úr þeim. Hún fær okkur til að hugsa um og ræða þessa útpældu og snjöllu uppbyggingu og magnaða útkomuna. Hin óumflýjanlega niðurstaða er að ekki sé eitt einasta feilspor tekið og að Gone Girl er enn ein rósin í yfirfullt hnappagat Finchers.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *