Borgríki 2: Blóð hraustra manna

Ungur og metnaðarfullur lögreglumaður stendur í skugga föður síns, sem er goðsögn innan lögreglunnar. Hann skítur á sig í sérsveitarprófinu og lætur sig hafa það að starfa í innra eftirliti lögreglunnar. Íslenskur glæpaforingi sem hefur misst veldi sitt í hendur serbneskra skúrka hyggur á hefndir og beitir ungu löggunni fyrir sig á meðan Serbinn ætlar að klára ein risastór fíkniefnaviðskipti og flytja svo til föðurlandsins með ólétta konu sína og haug af peningum. Gerspilltur yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar flækist á sama tíma enn fastar í neti Serbans sem hefur framtíð hans í hendi sér.

Borgríki 2: Blóð hraustra manna hefst á þessum kunnuglegu stefjum sem ómað hafa í kvikmyndum og sjónvarpi í gegnum áratugina. Það er semsagt heilmargt í gangi og ansi margar línur sem þarf að leggja í upphafi áður en sagan getur náð almennilegu flugi. Myndin fer því hægt af stað og hjakkar í klisjunum en öflugur hópur leikara í toppformi fleytir sögunni yfir þá hraðahindrun þangað til fjandinn verður laus og ballið byrjar fyrir alvöru.

Í Borgríki, sem var frumsýnd fyrir þremur árum, fléttaði leikstjórinn Ólafur Jóhannesson af mikilli list saman sögum fjögurra einstaklinga; krimmanna Gunnars og Sergej sem fóru hvor fyrir sínu genginu, lögreglukonunnar Andreu og svo hins breyska og spillta Margeirs sem stjórnar fíknó. Sögur þeirra eru spunnar áfram í Borgríki 2 en ekki jafn hnökralaust. Það er einhvern veginn of mikið í gangi til að byrja með, fókusinn óskýr og persónurnar fá hvergi nærri notið sín jafn vel og í fyrri myndinni.

Leikararnir klikka þó hvergi. Ágústa Eva Erlendsdóttir er svo ótrúlega heillandi og með mikla útgeislun að Andrea á fyrirhafnarlaust í manni hvert bein og alla samúð. Sigurður Sigurjónsson hefur, rétt eins og áður, góð tök á ræflinum Margeiri sem grefur sína eigin gröf í taugaveiklun og sjálfselsku. Ingvar E. Sigurðsson hefur ekki mikið fyrir því að gæða ófétið Gunnar lífi en þótt sá fláráði djöfull hafi farið illa út úr fyrri myndinni keyrir hann atburðarásina í gang hérna og lúrir eins og baneitruð könguló í miðjum vef sínum, þar sem aðrar persónur engjast.

Zlatko Krickic var óumdeild stjarna fyrstu myndarinnar og skilaði Sergej óaðfinnanlega og fann fullkomið jafnvægi milli mjúkra og harðra hliða persónunnar. Zlatko er í sama gírnum núna og klikkar ekki en hefði mátt fá meira pláss til að njóta sín.

Darri Ingólfsson er nýliðinn í hópnum og leikur lögguna ungu sem gengur illa að ávinna sér virðingu föður síns, sem sá frábæri leikari Theodór Júlíusson afgreiðir á sinn látlausa snilldarhátt. Darri virkar dálítið stirður framan af en eflist með hverjum ramma og eftir því sem syrtir í álinn hjá persónunni flæða tilfinningarnar frá honum þannig að óhjákvæmilegt er að þjást með honum. Og eftir því sem spennan magnast keyrir Darri sig upp og springur út af ótrúlegum fítonskrafti. Virkilega eftirminnilegur leikur.

Senuþjófur myndarinnar, að öllum öðrum ólöstuðum, er svo Hilmir Snær Guðnason sem nýtur sín í botn sem harðjaxlinn sem stjórnar sérsveit lögreglunnar. Hann töffar yfir sig í hlutverki sem hann hefur bersýnilega skemmt sér konunglega að kljást við.

Borgríki var á sínum tíma skemmtilega fersk og dálítið öðruvísi krimmi og Borgríki 2 gefur henni lítið eftir en skortir kraftinn sem var í persónusköpuninni áður. Leikararnir eru engu að síður í toppformi og skila sínu með sóma en persónur þeirra líða sumar fyrir gloppur í handritinu sem óþarfi er að fara nánar út í hér en á köflum er gripið til ódýrra trixa til þess að keyra framvinduna áfram og einhvern veginn finnst manni að vanir menn eins og handritshöfundarnir Ólafur Jóhannesson og Hrafnkell Stefánsson hefðu mátt fínpússa handritið betur á stöku stað.

Heildin vikrar samt vel og hasarinn og spennan eru ívið meiri en í forveranum og öll þau atriði eru ákaflega vel útfærð. Þá er kvikmyndatakan mjög smart og með nærmyndum tekst að gefa Reykjavík kúl stórborgarblæ og breiða yfir að sviðsmynd Borgríkis er í raun hallærisleg og frekar óspennandi borg.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published.