The Judge

Lögfræðingurinn Hank Palmer snýr aftur til heimahagana eftir tveggja áratuga fjarveru til þess að vera viðstaddur jarðaför móður sinnar. Daginn eftir jarðaförina er faðir Hanks, sem er umdeildur dómari í bænum, grunaður um morð á heimamanni. Samband þeirra feðga er ekki upp á marga fiska en sonurinn er sá eini sem getur komið honum til bjargar.

Á köflum mætti halda að Steven Spielberg hafi leikstýrt The Judge þar sem feðgaþema myndarinnar er áþekkt því sem einkennir fjölda kvikmynda leikstjórans fræga. En svo er ekki.

Leikstjórinn David Dobkin þeytir frumraun sína sem dramaleikstjóri með The Judge eftir að hafa leikstýrt gamanmyndum á borð við Wedding Crashers og The Change-Up. Og það sést því tónn myndarinnar er afar ójafn. Dobkin nær aldrei almennilegum tökum á efniviðnum og smellur myndin saman sem dramamynd en er á víðavangi ef hún ætti að kallast gamandrama. Þá brandara sem hitta í mark má telja fingrum annarrar handar og eru á skjön vegna þess að ef horft er fram hjá þeim er myndin á réttri braut sem dramamynd.

Robert Downey Jr. stjórnar hér ferðinni sem framleiðandi auk þess sem hann fer með aðalhlutverkið. Það verður eiginlega að segjast að Downey Jr. henti einfaldlega ekki í hlutverkið. Leikarinn góði hefur stimplað sig rækilega inn sem andlit Marvel-ofurhetjumyndanna í hlutverki glaumgosans Tony Stark eða Iron Man.

Í hlutverki Starks hefur meðfæddur hroki og fas Downeys Jr. verið honum í hag. Sama má segja um hina glæpsamlega vanmetnu Kiss Kiss Bang Bang en í The Judge verður hann aldrei nægilega sympatískur í hlutverki sonar sem reynir að tjasla saman sambandinu við föður sinn. Þetta sjálfumglaða viðhorf Downeys Jr. fer ekki persónunni og verða þessar erjur þeirra feðga fljótlega þreytandi þegar hann er með öll svör á reiðum höndum, með bros á vör.

Hlutverk dómarans steinliggur fyrir Robert Duvall sem faðirinn er að drepast úr siðferðislegu yfirlæti og er samband þeirra feðga trúverðugt. Eins og vanalega er alltaf jafn gaman að sjá Billy Bob Thornton láta að sér kveða og þótt hlutverkið sé ekki stórt þá er ekkert hlutverk of lítið fyrir góðan leikara. Vincent D'Onofrio og Jeremy Strong leika bræður hans Hanks og Vera Farmiga fer með hlutverk gamallar kærustu hans.

Í The Judge eru allar klisjurnar dregnar fram þar sem feðgaerjurnar rista djúpt og engin lausn virðist vera í sjónarmáli. Helsti galli myndarinnar felst þó í því að það er engu líkara en myndin viti ekki hvort hún eigi að vera ljúfsár gamanmynd eða samsuða af gamandrama og réttarhaldamynd. Eins og staðan er núna hefur kviðdómurinn ekki enn komist að niðurstöðu.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *