Fury

Árið er 1945. Í þann mund sem bandamenn eru að sigra möndulveldin í Evrópu fær fimm manna herdeild á Sherman-skriðdreka, sem ber nafnið Fury, það verkefni að fara bakvið víglínu óvinarins og láta til sín taka.

„Hugsjón er friðsæl, sagan er ofbeldisfull,“ segir Wardaddy sem Brad Pitt leikur er hann stappar stálinu í grænjaxlinn í hópnum og gerir sitt besta til þess að undirbúa nýliðann fyrir þann kalda og ljóta heim sem bíður hans. David Ayer, leikstjóri og handritshöfundur Fury, gerði garðinn frægan með handriti sínu að spennumyndinni Training Day árið 2000 en síðan þá hefur hann snúið sér að leikstjórn samhliða skrifum. Síðastliðinn áratug hefur Ayer sérhæft sig í lögreglumyndum og stendur End of Watch einkum uppúr sem fersk nálgun á löggudrama.

Einhverra hluta vegna hafa örfáar kvikmyndir lagt áherslu á líf og störf þeirra manna sem stýrðu skriðdrekunum sem ruddu sér leið yfir víglínuna. Battle of the Bulge kemur mögulega til greina en varla má segja að hún hafi gefið raunhæfa hugmynd um hvað gekk mönnum til í skriðdrekunum.

Fury gerist á þeim tíma stríðsins þar sem þýsku nasistarnir voru orðnir vonlausir og örvæntingarfullir. Mannslíf var einskis virði og breytti litlu hvort konur eða börn voru notuð í hernaðaraðgerðir. Áhorfendur kynnast liðsmönnum Fury eftir að einn meðlima hópsins lét lífið í bardaga. Langþreyttar og þjakaðar sálir sem leggja allt undir til þess að halda lífinu hvor í öðrum.

Rétt eins og í öðrum myndum Ayers dregur hann hvergi úr ofbeldinu og gefur raunhæfa hugmynd um þann botnlausa viðbjóð, grimmd og óhugnað sem fylgdi stríðinu. Mörgum áhorfendum á eflaust eftir að hrylla við þeim vægðalausu og ruddalegu atriðum sem sjást í myndinni. Hasarinn er hrár og hraður og myndin býður upp á einhvern flottasta skriðdrekanbardaga sem sést hefur þegar Fury mætir þýskum Tiger-skriðdreka. Spennan stigmagnast í takt við sprengingar, drunur og kúlnaþyt sem gengur yfir bíósalinn og er hljóðvinnsla myndarinnar hreint út sagt mögnuð.

Fury er önnur stríðsmyndin á stuttum tíma sem Pitt fer með aðalhlutverkið í. Hann fór á kostum í hlutverki Aldo Raine í kvikmynd Quentins Tarantino, Inglourious Basterds, fyrir fimm árum en Wardaddy er eins og fjarskyldur frændi Raine. Persónurnar deila vissri harðneskju og eru inn við beinið kaldrifjaðir morðingjar.

Hinir meðlimir herdeildarinnar eru leiknir af Shia LaBeouf, Michael Peña, Logan Lerman og Jon Bernthal og eru það órjúfanleg bræðrabönd og óbilandi innbyrðis traust heldur þeim gangandi. Persónur þeirra Lermans og LaBeoufs bera höfuð og herðar yfir aðra meðlimi hópsins og geta áhorfendur vel tengt sig við þróun Lermans í hlutverki nýliðans. Af einkærri óheppni lendir hann í þessu föruneyti hermanna en hann hafði ekki hlotið neina þjálfun í hernaði að því undanskildu að geta skrifað 60 orð á mínútu sem ritari. Þá kemur LaBeouf merkilega á óvart sem guðhræddur hermaður með biblíu í einni hendinni og vélbyssu í hinni.

Þeir hermenn sem deila Fury, þótt langt leiddir séu, eru gæddir lífi og baráttuneista. Það er þó ekki víst að myndin sé eldri reynsluboltum í stríðsmyndum að skapi af þeim sökum að hún fer ansi langt í ofbeldi og óhugnaði. Það má eiginlega segja að Fury sé nálægt því að gera það sama fyrir skriðdreka og meistaraverkið Das Boot gerði fyrir kafbáta. Svo góð er hún.

Published

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *